141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[10:40]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þessu máli er hægt að lýsa með þeim hætti að mínu mati að það sé skárra en ekki neitt. Hins vegar er það alls ekki nægilega gott. Við 2. umr. benti ég á að það þyrfti að lagfæra ákvæði frumvarpsins um þinglega meðferð, að inn kæmi þingsályktunartillaga sem færi í tvær umræður og yrði samþykkt hér með atkvæðagreiðslu um hvernig sölumeðferðin væri lögð upp, það þyrfti að vera ákvæði um hæfi eigenda. Við höfum svo sannarlega brennt okkur á því. Það þyrfti líka að liggja fyrir einhver afstaða, sem kemur ekki fram í nefndaráliti meiri hlutans, um hvað við teljum best varðandi sölumeðferðina.

Á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun kom fram að í fyrsta lagi væru mestir hagsmunir fyrir íslenska þjóðarbúið að meiri hlutinn í Kaupþingi og Glitni, ekki minni hlutinn sem við erum að tala hér um, yrði seldur fyrir sem lægsta upphæð. (Forseti hringir.) Það var líka bent á að hér er verið að gefa söluheimild fyrir Landsbankann og því má spyrja hvort Landsbankinn sé í raun og veru gjaldfær miðað við að það er verið að endursemja um skuldabréf (Forseti hringir.) sem þáverandi fjármálaráðherra undirritaði. Ég tel að þetta mál verði (Forseti hringir.) að fara aftur til fjárlaganefndar og að við verðum að vinna það betur. Það er ekki hægt að afgreiða málið svona. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir enn á tímamörkin sem eru ein mínúta um atkvæðagreiðsluna og biður þingmenn að virða þau.)