141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[10:42]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég tel að þingmenn allir geri sér vel grein fyrir því að þetta frumvarp er ekki hérna í þinginu vegna þess að ríkisstjórnin sé svo vel undirbúin að hefja sölu á bönkunum. Þetta frumvarp er í þinginu vegna þess að það er verið að fjármagna rekstur ríkisins með eignasölu.

Er hér tekið á stóru álitaefnunum sem upp komu vegna sölu bankanna? Er hér tekið á því hvort æskilegt sé að bankarnir séu í dreifðri eignaraðild?

Hér er lagt til að ríkið selji hluti í Íslandsbanka og Arion banka án þess að við vitum með hverjum ríkið á bankana í dag. Það er engu svarað, allt vald er afhent ráðherranum, það er farið fram á minni háttar samráð við þingið og ofan á það allt bætist að þetta er versti mögulegi tíminn til að selja eignarhluti í bönkunum. Þeir seljast ekki einu sinni á bókfærðu verði við þær aðstæður sem nú eru í fjármálaheiminum.

Það er allt vont við þetta mál, allt frá tímasetningunni á sölunni yfir til þess hvernig málið hefur verið undirbúið. Það er á fölskum forsendum komið inn í þingið, (Forseti hringir.) það er ekki hérna á þeim forsendum að menn hafi undirbúið sig svo vel og svarað öllum stóru álitamálunum. Þvert á móti er engu svarað.