141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[10:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ef menn hefðu fylgst með því hvað gerðist milli umræðna við afgreiðslu fjárlaga hefðu þeir áttað sig á því að sá hluti sem sneri að sölu eignarhluta ríkisins í fjármálastofnunum var lækkaður úr 8 milljörðum í 4 milljarða. Hvers vegna var það gert? Það var gert vegna þess að menn átta sig á því að fjármálastofnanir verða líklega ekki seldar á næsta ári því að markaðsaðstæður leyfa það ekki. Það er ekki verið að leggja það til með þessu frumvarpi að farið verði í vanhugsaðar sölur á óæskilegum tímum á fjármálastofnunum. Það er verið að leggja til sölumeðferð á eignarhlutum ríkisins í fjármálastofnunum sem byggir á jafnræði og gagnsæi. Það er lykilatriði þessa máls. Við erum líka að tryggja það með lögum að að minnsta kosti 70% af Landsbankanum verði áfram í eigu ríkisins.

Frú forseti. Það er ekki vanþörf á því að setja svona lög miðað við þá forsögu sem menn hafa með sölu á eignarhlutum í bönkum. Það ríður á að ljúka þessu máli fyrir kosningar þannig að við dettum ekki í sömu pytti í framtíðinni og (Forseti hringir.) menn gerðu í fortíðinni.