141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[10:48]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég held að spurningin hér sé þessi: Ef eða þegar til sölu á einhverjum eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum kemur, er þá ekki betra að til staðar sé lagarammi utan um slíka framkvæmd? Já eða nei? Vilja menn hafa óbreytt ástand, engan lagaramma um slíkt?

Í mínum huga er það tvímælalaust til bóta að slíkur lagarammi sé til staðar ef og þegar þarf að taka afstöðu til þess hvort ríkið vilji selja einhvern eignarhlut sem það á í fjármálastofnun. Það er líka til bóta, og ég fagna því, að því sé slegið föstu og gengið frá því í lögum að ríkið muni eiga yfirgnæfandi meiri hluta ef ekki að fullu stærsta banka þjóðarinnar, Landsbankann.

Í þriðja lagi er rétt að hafa í huga að ríkið á minni hluta og jafnvel mikinn minni hluta í sumum fjármálafyrirtækjum. Það ræður þar af leiðandi ekki ferlinu sjálft og getur þurft að taka afstöðu til þess þegar aðrir, þ.e. meirihlutaeigendurnir í viðkomandi stofnun, sparisjóði eða bönkum, vilja selja. Er þá betra að (Forseti hringir.) til staðar sé lagarammi um það ferli? Já eða nei? Svarið er í öllum tilvikum já.