141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[10:50]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það virðist vera einhver misskilningur uppi hjá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra um að hér sé ekki vilji til þess að setja lagaramma um það hvernig eigi að standa að sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum eða fyrirtækjum almennt. Það sem er verið að tala um er hvort við séum að gera það nægilega vel, hvort ekki sé ástæða til að við endurskoðum það að einhverju leyti að flýta okkur að afgreiða þetta mál fyrir jól, semjum jafnvel um ákveðna dagsetningu eftir áramót til að klára það ef menn treysta ekki hver öðrum betur en svo og vinnum þetta betur.

Hér hafa komið athugasemdir sem ég tel að eigi fyllilega rétt á sér og stemma við ábendingar sem komu frá starfshópi forsætisráðherra sem skilaði af sér í febrúar 2012 um að tryggja yrði betri þinglega meðferð. Hér er greinilegt að þingmenn skilja ekki alveg hvað stendur í 1. gr. í frumvarpinu og samspil hennar við 6. gr. í fjárlögunum. Það þarf að skýra það.

Ég tel að það sé líka betra fyrir hæstv. (Forseti hringir.) fjármálaráðherra þegar hún tekur ákvörðun um að selja þessa hluti að hún hafi skýran pólitískan stuðning (Forseti hringir.) með atkvæðagreiðslu í þinginu. Stoppum aðeins, íhugum málið, tökum það aftur upp í (Forseti hringir.) fjárlaganefnd og afgreiðum það í janúar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)