141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[10:56]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Eignarhald ríkisins á fjármálafyrirtækjum eða fyrirtækjum yfir höfuð er ekki æskilegt, en þegar verið er að endurreisa hér fjármálakerfi sem hrundi til grunna á sömu forsendum og það var þegar það hrundi er það algjörlega fáránleg tillaga og algjörlega fáránlegt að gera það. Það er verið að byrja á röngum enda.

Þessi ríkisstjórn er búin að hafa fjögur ár til að endurskipuleggja fjármálakerfið og hefur ekki gert það. Fjármálaeftirlitið hefur verið stækkað og eflt en það er líka það eina. Hér er enn þá viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi undir sama þaki. Það er algjörlega óásættanlegt. Hér er enn þá algjör fákeppni á bankamarkaði. Það er algjörlega óásættanlegt. Það verður aldrei til íbúðalánakerfi eða vaxtaumhverfi hér fyrr en búið að er að koma á aukinni samkeppni á fjármálamarkaði.

Það verður að gera betur og það verður að byrja á réttum enda, annars erum við bara að byggja sömu spilaborgina aftur sem hrundi. (Forseti hringir.) Það er furðulegt eins og ég sagði áðan að þingmenn Vinstri grænna skuli vera aðalsprautan í því máli.