141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[10:58]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er augljóst hvað hér er á ferðinni, um er að ræða frumvarp sem heimilar ráðherra sölu á eignarhlutum ríkisins í bönkunum. Ég held að það sé svolítið teygt að halda því fram að hér sé búið að búa til með fullnægjandi hætti það regluverk sem þarf að vera utan um slíka sölu. Ég held að við hljótum að þurfa að gera miklu betur en þetta. Það er eðlilegt að við hlustum á það sem Seðlabankinn hefur fram að færa í þessu máli og tökum mið af því. Ég held að sú lausn sem hefur komið frá hv. nefnd sé engan veginn fullnægjandi hvað það varðar.

Það er rétt sem hér hefur komið fram að eitt af þeim málum sem mun hafa veruleg áhrif á bankastarfsemi á Íslandi er sú spurning hvort við ætlum að aðskilja viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi. Það er stórt mál. Ég held til dæmis að það færi vel á því að við værum búin að taka ákvörðun um það hér í þingsal áður en kæmi að því að við færum að selja þessa hluti, hvort sem er í miklum mæli eða ekki. (Forseti hringir.)

Ég legg til að við vísum þessu máli frá, vöndum okkur betur og vinnum (Forseti hringir.) þessa vinnu betur og frá grunni.