141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[11:03]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það má segja að í þessari grein sé uppsafnaður lærdómur stjórnarflokkanna af söluferli bankanna á fyrri stigum. Hérna eru meginreglur um sölumeðferð, hérna er allur lærdómurinn samandreginn í eina málsgrein, ekki satt? Hér segir að við sölumeðferð skuli lögð áhersla á opið söluferli og hlutlægni og í grófum dráttum fær svo bara sá sem býður hæst.

Um hvað hefur verið deilt öll þessi ár eftir að ríkisbankarnir voru seldir? Hefur ekki verið deilt um það hvort við ættum að byggja á dreifðri eignaraðild eða kjölfestufjárfestum, hvort við ættum að vera með hlutina skráða, hlutverk stærri eigenda, hvort þeir mættu vera í miklum viðskiptum við bankana o.s.frv.? Hvernig eru öll stóru álitamálin afgreidd hér? Þið skilið algjörlega auðu, sem að þessu standið, um öll stóru álitamálin. Það er ekkert innihald í þessari grein eða í þessu (Forseti hringir.) frumvarpi yfir höfuð.