141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

vörugjöld og tollalög.

473. mál
[11:19]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þetta mál er gott dæmi um það hvernig forræðishyggja og skattagleði vinstri stjórnarinnar fer saman. Þarna er ástæða nýjustu skattahækkana sögð vera manneldissjónarmið. Svo kemur í ljós við vinnu nefndarinnar að árangurinn er að súkkulaði og karamellur lækka í verði, það eru manneldissjónarmiðin. (Gripið fram í: Hækka.) — Lækka í verði. (Gripið fram í: Hækka.)

Þetta gengur ekki, frú forseti, þetta flækir skattkerfið, þetta nær ekki manneldismarkmiðunum og hækkar lánin okkar og eykur verðbólgu. Þetta eru mjög vond skilaboð.

Ég held að við ættum að læra af Dönum. Þeir settu svona sykurskatt á fyrir ári og viðurkenndu núna í haust í fjárlagafrumvarpi sínu að þetta hefði verið tilraun sem mistókst, hún jók stjórnsýslukostnað, náði ekki manneldismarkmiðunum og var algjörlega misheppnuð. (Forseti hringir.) Þeir lögðu skattinn niður en íslenska vinstri stjórnin ætlar að fara þessa vondu leið.