141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

vörugjöld og tollalög.

473. mál
[11:26]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Þetta er breyting til batnaðar og við munum greiða atkvæði með henni. Það er afskaplega mikilvægt að við skoðum í leiðinni það sem snýr að farmönnum. Við höfum vakið athygli á því í nefndinni og fögnum því að hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Helgi Hjörvar, er tilbúinn að fara yfir það mál. Við skulum hins vegar vera alveg meðvituð um það að meðan við erum með þetta kerfi er þetta mismunun. Það er munur á því hvort fólk hafi efni á því að fara til útlanda og geti þá keypt sér þessar vörur og meðan við tökum þetta kerfi ekki til heildstæðrar endurskoðunar, þ.e. vörugjalda-, tolla- og skattkerfið, erum við með mismun í þjóðfélaginu sem kemur verst niður á þeim sem síst skyldi. Því miður hafa menn ekki nýtt tækifærið á þessu kjörtímabili til að fara í endurskoðun á þessu fyrirkomulagi þannig að það bíður nýs þings (Forseti hringir.) að gera það.