141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[11:35]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti og breytingartillögum sem dreift hefur verið frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar við frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Ég vil jafnframt gera grein fyrir breytingartillögu sem ég mun leggja fram við 2. umr. og kynnti á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun, en frumvarpið hefur tekið allnokkrum breytingum í meðförum meiri hlutans.

Frumvarpið um ráðstafanir í ríkisfjármálum, stundum kallað bandormurinn, felur í sér margháttaðar ráðstafanir í ýmsum lögum sem gerðar eru til að mæta þeim markmiðum sem sett hafa verið fram í fjárlögum um tekjuöflun fyrir ríkissjóð á komandi ári. Þetta frumvarp kom seint fram í þinginu og því hefur verið lítill tími til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd. Nefndin hefur þó nýtt hann vel og ég þakka hv. nefndarmönnum fyrir gott samstarf í þeirri vinnu. Nefndin hefur gert ýmsar breytingar á atriðum í því sem betur mætti fara m.a. til að koma til móts við sjónarmið sem fram komu við þinglega meðferð og einnig til að taka mið af sjónarmiðum þeirra aðila sem verða fyrir þeirri skattlagningu sem hér er óhjákvæmilega verið að leggja til. Eins og menn vita þarf að afla aukinna tekna í ríkissjóð á næsta ári því að ríkissjóður er rekinn með umtalsverðu tapi á yfirstandandi ári, sem því miður verður ekki annað en skuldir á komandi kynslóðir. Til að við höldum ekki enn áfram að safna skuldum á börnin okkar þurfum við því miður að auka skattheimtu lítils háttar á næsta ári en það skiptir auðvitað máli að hún sé útfærð þannig að þeir sem fyrir því verða séu sem sáttastir og það eigi sér eðlilegan aðdraganda og taki mið af þeim sjónarmiðum sem fram koma í þinglegri meðferð.

Ætlunin í frumvarpinu var að falla frá helmingi af afslætti af vörugjöldum af bifreiðum sem bílaleigur í landinu hafa notið og skilaði ríkissjóði 500 millj. kr. í auknar tekjur á næsta ári. Fyrirhugað var að annað eins yrði síðan gert á árinu þar á eftir, þ.e. árið 2014. Fallið hefur verið frá síðari hluta hækkananna og eftir samráð við bílaleigur þá hefur samsetningunni á því með hvaða hætti þessum tekjum er náð af vörugjöldunum verið breytt.

Í staðinn fyrir að lækka afslátt bílaleignanna um helming þá er krónutöluþak sett á hámark afsláttar sem er m.a. gert til þess að draga úr möguleikum til misnotkunar á þessum ívilnunum. Það krónutöluþak nemur 750 þús. kr. og skilar ríkissjóði 100 millj. kr. af þessum 500. Þá er lagt leyfisgjald á bílaleigur sem nýta þessa afslætti. Það er 1.750 þús. á bílaleigur sem flytja inn allt að 35 bifreiðum, 3.750 þús. fyrir þá sem flytja inn 35–250 og 6.750 þús. fyrir þá sem flytja inn umfram það. Þessi liður skilar ríkissjóði 200 millj. kr.

Það var síðan leitast við að koma til móts við hugmyndir sem bílaleigurnar höfðu haft uppi um það sem þær kölluðu vegskatt sem næmi um 1,5% af þeim útleigum sem bílaleigurnar gera. Meiri hlutinn setti þá breytingartillögu fram við 2. umr. en eftir frekari fundahöld með bílaleigunum er ljóst að á þeim skatti eru ýmsir annmarkar bæði af þeirra hálfu og af hálfu ríkissjóðs. Því var það niðurstaða mín á fundi með þeim í morgun að falla frá þessum hluta breytinganna og hækka vörugjöldin í staðinn í tímabundnu ákvæði til eins árs. Það skilar þá 200 millj., en er meira en helmingi minni lækkun en upphaflega var ráðgert. Þetta er gert tímabundið til að koma til móts við sjónarmið aðilanna um að þessu megi koma betur fyrir. Einnig er hvatt til þess að tímabundin undanþága þeirra til að fá að selja bíla sem þeir hafa haft til umráða í 6 mánuði verði haldið því það hvetur þá til að kaupa bifreiðar á næsta ári í ríkari mæli en ella. Ef aðeins væri dregið úr afslættinum þá er hætta á að það mundi leiða til umtalsverðs samdráttar í innkaupum hjá bílaleigunum, með tilheyrandi neikvæðum áhrifum fyrir bílgreinina alla, fyrir endurnýjun bílaflotans og fyrir tekjur ríkissjóðs.

Auðvitað eru bílaleigurnar ekki sáttar við að þurfa að leggja 500 millj. meira af mörkum en þær eru sáttar við þær breytingar sem hv. efnahags- og viðskiptanefnd hefur gert á málinu í meðförum þingsins.

Í frumvarpinu var gert ráð fyrir að hækka virðisaukaskatt á gistingu, fyrst í 25,5% en fallið var frá þeim áformum og fyrirhugað að hækka virðisaukaskattinn á gistingu úr 7% í 14% frá 1. maí. Niðurstaðan er síðan sú að sá skammi frestur á verðbreytingum sem þessum sé ekki nægilegur fyrir greinina og því er eðlilegt að þessi hækkun taki gildi 1. september á næsta ári. Það er þó ástæða til að vekja athygli á því að bæði þetta sem leggst á gistinguna í landinu og það sem leggst á bílaleigurnar hefur þann ágæta kost að vera að umtalsverðu leyti greidd af ferðamönnum. Hún leiðir ekki til teljandi hækkunar á verðlagi innan lands eða neysluverðsvísitölunni og þar með skuldum heimilanna og það er ástæða til að þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir að hafa leitað leiða til þess, þegar nauðsynlegt var að fara í aukna tekjuöflun, að láta það koma fram á stöðum þar sem það hefði sem minnst neikvæð áhrif að þessu leytinu til og að aðrir en Íslendingar bæru þetta að stærstum hluta.

Í frumvarpinu var gert ráð fyrir því að falla frá afdráttarskatti af vaxtatekjum sem greiddar eru úr landi. Sá afdráttarskattur var 20% en var lækkaður á síðasta ári í 10% og var gert ráð fyrir því að með því að falla frá honum að öllu yrði tekjutap ríkissjóðs 2,2 milljarðar kr. Þetta var fyrst og fremst gert vegna þess að þessi skattur hefur orðið til að hækka kostnað við lánafyrirgreiðslu sem Landsvirkjun og ýmsir aðrir aðilar í atvinnulífinu hafa haft erlendis og auka kostnað þeirra. Einnig var talið að þetta væri til trafala fyrir nýfjárfestingu í landinu. Við nánari skoðun kom hins vegar í ljós að það að fella ákvæðið algerlega brott er óþarflega langt gengið. Það er vegna þess að auðvitað eru ýmsir erlendir aðilar sem taka vaxtatekjur út úr Íslandi ekki að lána beint til fjárfestinga eða þessum fyrirtækjum, Landsvirkjun og öðrum aðilum, heldur bara að taka vaxtatekjur af öðru. Auk þess er ástæða til að hafa áhyggjur af því að innlendir aðilar með erlend félög á sínum vegum kynnu að nýta skattfrelsi vaxtagreiðslna úr landi til svokallaðrar skattasniðgöngu, sem venjulegt fólk kallar bara skattsvik. Þess vegna telur meiri hlutinn að mikilvægt sé að falla ekki með öllu frá þessari skattlagningu heldur að afmarka hana betur þannig að fallið sé frá skattlagningu á fjármögnun sem menn sækja sér á alþjóðamarkaði, skráð á markaði og sem menn sækja ekki til tengdra aðila. Það sé ekki þannig að dótturfélög geti greitt móðurfélögum erlendis vexti út úr Íslandi án þess að greiða af því neina skatta.

Þegar við lítum til þess að þeir sem hér eru á Íslandi hafa mátt axla það eftir efnahagshrunið að þurft hefur að hækka fjármagnstekjuskatt þeirra úr 10% í 20% til að leysa úr þeirri erfiðu efnahagsstöðu sem eftir er innan lands þá held ég að það sé alls ekki óhóflegt að halda 10% skatti á greiðslu vaxta úr landi til framtíðar, á því sem lýtur ekki að fjármögnun aðila eins og Landsvirkjunar og fjárfestinga í atvinnulífinu. Við þessa afmörkun verður tekjutap ríkissjóðs 1,6 milljörðum minna og það er tillaga meiri hlutans, eins og ég gerði grein fyrir í gær, að þeir fjármunir verði nýttir til að falla frá ýmsum verðhækkunum sem hefðu haft óæskileg áhrif á vísitölu neysluverðs og verðlagsþróun í landinu og þar með á skuldir heimilanna. Við leggjum til að fallið verði frá hækkunum á bensín, olíu og þungaskattinum. Samtals kosta þessar tillögur um 850 millj. kr.

Þá gerum við tillögu um að bifreiðagjöld verði heldur ekki hækkuð. Það er aðgerð sem kostar 300 millj. kr. Við leggjum jafnframt til að bjór og léttvín taki ekki hækkunum, það kostar 250 millj. kr. Sterka vínið mun eftir sem áður hækka, en ég minni á að á árinu 2011 var ákveðið að láta sterka vínið ekki taka verðlagshækkunum. Það væri auðvitað varhugavert ef það yrði að venju annað hvert ár að sterkt áfengi sætti ekki verðlagsuppfærslum. Það mundi til lengri tíma leiða til óæskilegs jafnvægis á milli þessara tegunda, bjórs og léttvíns annars vegar og sterks víns hins vegar.

Að lokum er gerð tillaga um að fallið sé frá hækkun útvarpsgjalds. Þar eru tæpar 200 millj. kr. sem um ræðir eða samtals rétt tæpar 1.600 millj. kr. Áhrifin á niðurstöðutölu ríkissjóðs eru þannig nánast engin, þó jákvæð um 10 millj. kr. Ég tel að þessi breyting sé ótvírætt til batnaðar en nefndin mun halda áfram fram að 3. umr. að skoða afmörkunina á þessum breytingum á afdráttarskattinum og ef málefnaleg sjónarmið koma fram um að þessum markmiðum megi betur ná með örlítið breyttu orðalagi eða öðru slíku þá áskiljum við okkur rétt til að koma með það hingað inn til 3. umr.

Í frumvarpinu eru síðan margvísleg önnur umfangsmikil ákvæði sem þingmenn þekkja auðvitað. Þau lúta til að mynda að barnabótum og vaxtabótum. Hér eru líka ákvæði sem snúa að stimpilgjöldum sem ég vil gera að sérstöku umfjöllunarefni. Endurfjármögnun lána hefur verið tímabundið stimpilgjaldsfrjáls. Við teljum enga ástæðu til að hafa það tímabundið. Þetta er ekki neitt sérstakt hrunfyrirkomulag. Það eigi einfaldlega ekki að vera stimpilgjald á endurfjármögnun og við gerum því niðurfellingu stimpilgjalda að varanlegu ákvæði í skattalögum.

Við tökum líka tillit til þess að sumir sem endurfjármagna lán sín hafa viljað breyta úr verðtryggðum lánum í óverðtryggð lán því að til að fá óverðtryggð lán þarf meiri eignir og hærri tekjur en verðtryggð lán. Þá eru menn á stundum aðeins að fá samþykki fyrir því að endurfjármagna hluta lána sinna auk þess sem aðrir aðilar hafa kosið að endurfjármagna lán sín að hluta í óverðtryggðu, einfaldlega til að dreifa áhættu. Þeir hafa hins vegar ekki fengið niðurfellingu á stimpilgjaldi og við teljum það einfaldlega sjálfsagt jafnræðismál að það gildi líka um þá sem endurfjármagna lán sín að hluta. Við gerum því nauðsynlegar breytingar á lögunum til að tryggja það.

Ýmis önnur ákvæði er að sjálfsögðu að finna í ráðstöfunum í ríkisfjármálum, þessu viðamikla máli og ýmsar aðrar breytingartillögur finna þingmenn í þingskjölum. En í ljósi þess að við erum að kappkosta að ljúka þingstörfum á sem skemmstum tíma þá læt ég hér lokið greinargerð fyrir þessum málum. Þingmenn geta beint spurningum til mín í andsvörum og einnig undir umræðunni og ég mun leitast við að bregðast við þeim í lok umræðunnar.