141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[11:50]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Í gær taldi ég að við værum að setja nýtt heimsmet í virðisaukaskatti, 27%, en nú er það heimsmet fallið vegna þess að það var dregið til baka í þeim tillögum sem hv. formaður nefndarinnar samdi um við skattgreiðendur í morgun. Það er reyndar mjög ný tilbreytni og kannski til eftirbreytni að þeir sem semja lög á Alþingi semji við skattgreiðendur um hvernig hægt sé að ná ákveðnum skatttekjum af greininni. Það getur vel verið að það leiði til þess að allir séu sáttari við skattheimtuna. Svo er nú mjög gott að það eru kosningar í nánd. Það þarf eiginlega að gerast reglulega til að gjöld eins og útvarpsgjald, bensíngjald og slíkt hækki ekki upp úr öllu valdi eins og gert hafði verið ráð fyrir.

Mig langar til að spyrja hv. formann nefndarinnar, Helga Hjörvar, hversu góðar upplýsingar eru til um þennan afdráttarskatt sem á að standa undir öllum hinum jólagjöfunum, 1.600 millj. kr.? Hvað vita menn mikið um þetta og hvernig mun það virka? Það á sem sagt að undanskilja þessa venjulegu hefðbundnu samninga um lánaviðskipti en þeir sem fá vexti greidda til útlanda munu greiða. Ég er alveg sammála því og mér þykir það eiginlega réttlátt.

Síðan er það stimpilgjaldið. Er víst að það nái því markmiði að auka samkeppni á lánamarkaði þannig að menn geti flutt lán á milli banka sem hefur verið illmögulegt vegna stimpilgjalda hjá bönkunum, sem er reyndar samkeppnisatriði? Ég vil spyrja: Nær þessi tilhögun til allra þeirra tilvika sem geta komið upp þegar fólk þarf eða vill skipta um banka?