141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[12:00]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit hver hugur hv. þingmanns er og ég hvet hann til að láta ekki kerfiskarla og kerfiskerlingar rugla sig neitt í ríminu. Skattkerfið okkar er allt fullt af endurgreiðsluaðferðum. Kerfið okkar í skattamálunum er einmitt fullt af ákvæðum af þeim toga. Við höfum það um vaxtabætur, barnabætur o.s.frv. Það er enginn vandi að koma því við. Þetta er auðvitað pínulítið meira umstang en við verðum að horfa á það í miklu víðtækara ljósi.

Hér er um að ræða réttlætismál fyrir sérstaka hópa, tekjulága hópa, eignaminni hópa og ungt fólk. Þetta gæti auðvitað verið liður í því að létta undir með þeim hópum sem ég veit að hugur okkar flestra stendur til. Því hvet ég hv. þingmann til þess líka vegna þess að hann hefur verið að gera breytingar á frumvörpum sem hafa verið í nefndinni alveg fram á síðustu stundu. Við höfum tækifæri til þess í 3. umr. og ég hvet hv. þingmenn til að skoða það upp á nýtt. (Forseti hringir.) Þetta er ekki stórt mál í samhengi við ríkissjóð en gríðarlega stórt mál fyrir (Forseti hringir.) þessa hópa sem ég vísaði til áðan.