141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[12:06]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin og ég heyri að við erum sammála um hvernig ber að standa að skattkerfisbreytingum. En mig langar að gera eina athugasemd þar sem hv. þingmaður telur að fjárlagahalli næsta árs verði 3 milljarðar. Það kemur fram í áliti 1. minni hluta fjárlaganefndar að hann verður sennilega nær tífalt hærri en það og enginn hefur treyst sér til að andmæla því í umræðunni um fjárlög, enginn. Við tilgreinum þann slaka eða vantalin gjöld, ef ég má nota það orðalag, sem eru í frumvarpinu. Það hefur enginn getað hrakið það og hallinn verður því miður nær 30 milljörðum en 3.

Mér fannst líka athyglisverð nálgun hv. nefndar þar sem gerð er athugasemd í tengslum við þau fyrirtæki sem skrifuðu undir samkomulag um fyrirframgreiðslu vegna raforkuskattsins. Sá texti kemur fram í meirihlutaálitinu að íslensk stjórnvöld ættu af fremsta megni að bera sig eftir samkomulagi við umrædd fyrirtæki um áformin. Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann geti útskýrt þetta nánar.