141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[13:55]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekkert að afneita því að fólk hafi tapað miklum fjármunum í hruninu. En ef maður skoðar bara eignastöðuna eftir aldurshópum hafa þeir sem eiga hvað mesta hlutabréfaeign aukið hlutdeild sína í heildareignum þjóðarinnar (Gripið fram í: Fasteignum.) frá hruni þannig að staða þeirra er betri samanborið við yngri aldurshópa. Þannig er staðan í dag.

En auðvitað er ég að tala um köku sem er orðin minni vegna þess að svo margir töpuðu. Ég er að tala um heildareignir sem eru svo miklu minni eftir hrun en þær voru fyrir hrun. Hlutfallsleg staða þeirra er betri, ekki „absolút“-staða, þeir töpuðu í hruninu.

Um spurninguna hvort tekjutengja eigi barnabætur eða ekki þá er ástæðan fyrir því að þær eru ekki tekjutengdar á Norðurlöndum sú að talið er að hlutverk tekjuskattskerfisins sé að tryggja framfærslu. Það verður þá bara að vera lægri skattheimtu í tekjuskattskerfinu ef menn telja sig þurfa að tryggja framfærslu ákveðinna hópa og taka jafnvel tillit til barna við álagningu tekjuskatts. En það eru ekki barnabætur sem slíkar sem á að tekjutengja og sérfræðingar sem hafa verið að velta sér upp úr einkennum velferðarkerfa tala um að ótekjutengdar barnabætur séu perla norræna velferðarkerfisins. Ein aðalástæðan fyrir því að millistéttin er tilbúin að borga skatta er sú að með því að fá sömu upphæð í barnabætur og allir aðrir hópar finnst henni hún vera að fá eitthvað út úr kerfinu en ekki missa af (Forseti hringir.) einhverju í gegnum tekjutengingu.