141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[13:57]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum ráðstafanir í ríkisfjármálum, þetta merkilega frumvarp sem menn kalla stundum bandorminn af þeirri ástæðu að þarna ægir saman alls óskyldum hlutum. Þetta frumvarp mun aldrei fá íslensku bókmenntaverðlaunin, það er ljóst, og er ekki mjög heilsteypt verk svo ekki sé fastar að orði kveðið.

En þetta er nauðsynlegt frumvarp. Það fjallar um ýmsar tekjuöflunaraðgerðir sem samtals nema ríflega 8 milljörðum kr. og tengjast fjárlögum sem voru afgreidd í gær með halla upp á 0,2% af landsframleiðslu, 3,7 milljarða samanborið við 216 milljarða halla 2008. Auðvitað er þetta mjög gleðileg vísbending um að tekist hafi að snúa við í ríkisbúskapnum þó að vissulega séum við enn að glíma við ýmsa bakreikninga sem tengjast árunum fyrir hrun og ekki síst erfiðri stöðu Íbúðalánasjóðs sem mun sannarlega hafa áhrif á ríkisreikninginn á komandi missirum og önnur atriði sem farið hefur verið vel yfir í fjárlagaumræðunni.

Ég vildi hnykkja á örfáum atriðum. Formaður nefndarinnar hefur farið vel yfir einstök ákvæði frumvarpsins og aðrir í þessari umræðu tekið mið af einstökum þáttum. Mikilvægasta atriði þessa frumvarps fyrir fólkið í landinu er auðvitað hækkun barnabóta sem hækka um 2,5 milljarða frá fyrra ári auk þess sem staðinn er vörður um sérstöku vaxtabæturnar sem ella hefðu fallið úr gildi á næsta ári og hefðu lækkað vaxtabætur um 30% að óbreyttu.

Það hefur verið komið mjög til móts við sjónarmið ferðaþjónustunnar vegna hækkunar virðisaukaskatts á hótel- og gistiþjónustu. Niðurstaðan er 14% skattur sem leggst á frá og með 1. september þannig að breytingin er mun vægari fyrir greinina. Aðlögunartíminn lengist og hávertíðin næsta sumar er varin fyrir hækkunum. Ég hef verið þeirrar skoðunar að það sé afar mikilvægt að taka allt virðisaukaskattskerfið til endurskoðunar, fara í gegnum allar undanþáguheimildir og skoða hverjar eiga enn þá rétt á sér. Ég held að þar sé ýmislegt sem rétt sé að endurskoða með það að markmiði að við getum náð almennu tekjuskattsprósentunni niður á móti.

Gerðar hafa verið breytingar á vörugjöldum o.fl. vegna bílaleigna sem sömuleiðis koma til móts við sjónarmið hagsmunaaðila þó að auðvitað séu þeir ekki fylgjandi aukinni gjaldtöku sem eðlilegt er. Ég vil fagna sérstaklega breytingartillögu meiri hlutans um að ákvæði til bráðabirgða um niðurfellingu stimpilgjalda þegar um er að ræða skuldbreytingar húsnæðislána verði gerðar varanlegar. Þetta er afar mikilvægt skref og það er nauðsynlegt að stíga fleiri slík skref í framtíðinni til að auðvelda neytendum að færa viðskipti sín milli lánastofnana og styrkja samkeppni á fjármálamarkaði sem er í miklu skötulíki og hefur verið árum saman.

Ég vil einnig vekja athygli á og fagna sérstaklega framlengingu ákvæðisins um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu við endurbætur á eigin húsnæði. Þetta ákvæði hefur verið kynnt í átakinu Allir vinna og hefur skapað vel á annað þúsund ársverk í byggingargreinum á undanförnum missirum. Auðvitað væri eðlilegt að velta því fyrir sér hvort ekki sé tilefni til þess, í ljósi þess hve mikil þörf er á aðgerðum gegn skattsvikum í þessum geira eins og fleirum, að framlengja þetta ákvæði til lengri tíma og gefa íbúðareigendum meira svigrúm til að skipuleggja endurbætur lengra fram í tímann. Ég vona að það verði tekið til skoðunar á næsta ári.

Það er ástæða til að vekja athygli á því að stjórnvöld áforma að gefa verulega í varðandi skatteftirlit og má þar minna á þingsályktunartillögu sem ég og fleiri þingmenn hafa flutt um bætt skattskil. Stjórnvöld gera ráð fyrir því að sú aðgerðaáætlun sem þar er lagt til að verði mótuð verði unnin á næsta ári í samræmi við þingsályktunartillöguna og að það muni skila inn 600 millj. kr á næsta ári. Það er mikilvægt að styrkja verulega lagaheimildir ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra og tollstjóra til að beita viðurlögum sem bíta þegar skattundanskot eru annars vegar og hefur verið misbrestur á því á undanförnum árum.

Ég vil síðan að lokum vekja sérstaka athygli á mikilvægu ákvæði í breytingartillögu meiri hluta nefndarinnar um vistvænar samgöngur en þar er á ferð sú nýjung að launamenn sem nýta almenningssamgöngur eða vistvænar samgöngur geta fengið sérstaka samgöngustyrki sem ekki falla undir skattskyldar tekjur. Þetta á við um þá sem ferðast með almenningsvögnum, nota reiðhjól eða ganga eða hlaupa í vinnuna. Slíkir styrkir hafa tíðkast og hafa numið að hámarki 5 þús. kr. á mánuði en þeir hafa hingað til aldrei náð til ferða í og úr vinnu og þar af leiðandi hafa þeir ekki nýst stórum hluta launamanna.

Það má vekja athygli á því að á stærsta vinnustaðnum í ríkiskerfinu, Landspítalanum, eru uppi metnaðarfull áform um samgöngustyrki á komandi árum og þar á bæ hafa menn sett sér þá stefnu að fjölga þeim starfsmönnum sem fara í og úr vinnu með vistvænum hætti úr ríflega 20% í a.m.k. 30% á næstu tveimur árum. Það mundi létta verulega á umferðinni í borginni. Það er áætlað að ef þetta stefnumið nær fram að ganga muni bílum fækka í umferðinni á götum borgarinnar um 200–250 á dag og munar sannarlega um minna. Ef við náum fleiri stofnunum ríkisins, ráðuneytum og fleirum inn á svipaða stefnu gæti það létt verulega á álaginu í umferðinni í borginni, fækkað bílastæðum og skilað sér í minni mengun.

Ég vil að lokum hvetja til þess að í samskiptum ráðuneytis og Alþingis verði gerð veruleg bragarbót á vinnubrögðum varðandi þetta ágæta frumvarp, þennan bandorm. Það er alveg ljóst að hann þarf að koma miklu fyrr inn í þingið því hér eru ýmis atriði sem þarf að liggja betur yfir og er mjög mikilvægt að gerð verði bragarbót á því strax á næsta þingi.