141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[14:09]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Hv. þingmaður fullyrðir að búið sé að ná betri tökum á ríkisfjármálunum og meiri aga. Því er ég ekki sammála. Ég tel mig þekkja nokkuð vel til í þeim málum vegna þess að við sjáum það ítrekað hvernig er farið fram úr útgjaldahlið ríkisfjármálanna. Það er ekki tekjuhliðin sem skapar vandræðin, það er útgjaldahliðin, trekk í trekk allt þetta kjörtímabil.

Hv. þingmaður segir eina ferðina enn að þetta hafi gerst í tíð Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Þá langar mig að spyrja hv. þingmann: Hver var formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins í hruninu og hver var hæstv. viðskiptaráðherra þegar hrunið átti sér stað? Getur hv. þingmaður svarað mér því? (SkH: Hvaða flokkar?) Ja, bara hver það var. Ég þykist vita hitt.

Síðan kemur hv. þingmaður og segir að atvinnuleysið hafi minnkað. Það er vissulega rétt en það er ekki vegna þess að störfum hafi fjölgað. Það er auðvitað vegna þess að bæði hefur fólk leitað erlendis og svo er það komið í ákvæðin úrræði sem hafa verið til að bregðast við því fólki sem er á atvinnuleysisbótum. Það er auðvitað mikilvægt að setja það í rétt samhengi hvort störfunum hafi fjölgað, þótt mjög mikið hafi orðið til af störfum einmitt í eftirlitskerfinu og rannsóknarkerfinu eftir fjármálahrunið.

Síðan langar mig til að segja við hv. þingmann að menn hafa talað um mikilvægi þess — og hafa í raun og veru verið að tala um að nú séu þessi sóknarfjárlög og þau sé auðvitað liður í því sem við erum hér inni með þennan bandorm. En þetta er algert skipbrot á efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Það gefur algerlega augaleið. Það hefur mistekist að búa til þennan hagvöxt sem nauðsynlegur er til að vinna okkur út úr kreppunni. Þessi skattpíningarleið er farin. Tímabundnir skattar eru framlengdir. Nýir skattar eru settir og það er alveg sama hver það er. Ég ítreka spurningu mína til hv. þingmanns. Getur hann nefnt einhvern einn aðila sem er mikilvægt að komi að því að ná tökum á ríkisfjármálunum sem hæstv. ríkisstjórn er ekki í stríði við?