141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[14:11]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil segja hér sem augljóst er að ríkisstjórnin er ekki í stríði við nokkurn mann. Það eru skiptar skoðanir um einstök atriði í samskiptum ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins, þar þurfa báðir aðilar að finna til ábyrgðar og laga það í framtíðinni.

Spurt var um tvo einstaklinga, formann stjórnar Fjármálaeftirlitsins sem var Jón Sigurðsson og viðskiptaráðherra sem var Björgvin G. Sigurðsson. Ég spyr á móti: Er hv. þingmaður að gera því skóna að þeir sem báru mesta ábyrgð á fjármálahruninu hafi verið þeir einstaklingar sem voru í viðkomandi embættum síðustu mánuðina fyrir hrun? Eru menn virkilega svo barnalegir að halda því fram að orsakir fjármálahrunsins liggi í einhverjum einstaklingum sem voru í þessum embættum eftir — ef menn hafa lesið skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis þá er ein meginniðurstaða hennar að árið 2006 hafi verið síðasti möguleikinn á því að forða þessu hruni. (Gripið fram í.) Ætla menn þá að koma hingað og hengja einstaklinga sem voru þarna síðustu mánuðina? (Gripið fram í.) Hv. þm. Birgir Ármannsson nefnir fyrrverandi forsætisráðherra. Hann var einmitt fjármálaráðherra þegar bankarnir voru einkavæddir (Gripið fram í.) og hann bar mjög mikla ábyrgð á því. Hann var einstaklingur sem bar mjög mikla ábyrgð á (Gripið fram í.) nákvæmlega þeim atriðum sem tengdust fjármálahruninu. (Gripið fram í: Það var ekki … 2006.) Við skulum halda okkur hér við staðreyndir. (Gripið fram í.) Við erum að ræða um ráðstafanir í ríkisfjármálum og það sem skiptir mestu máli er að þessi ríkisstjórn hefur náð að koma böndum á ríkisfjármálin. Ég man það mjög vel þegar við vorum hér í aðdraganda kosninga 2007, þá riðu ráðherrar um héruð og eyddu úr ríkissjóði, gáfu skuldbindingar upp á 73 milljarða kr. síðustu mánuðina fyrir kosningar. Það er ekkert slíkt á ferðinni núna í þessum fjárlögum sem við vorum að samþykkja í gær og í því liggur munurinn á milli jafnaðarmanna og þeirra sem hér réðu ríkjum í fyrri ríkisstjórn.