141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

dómstólar.

475. mál
[14:49]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Magnús Orri Schram) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um dómstóla, fyrir 3. umr., en nefndarálitið er með breytingartillögu nefndarinnar.

Meiri hluti nefndarinnar segir í álitinu að nefndin hafi sérstaklega farið yfir 5. gr. frumvarpsins sem kveður á um heimild ráðherra til að skipa varadómara vegna anna að tillögu forseta Hæstaréttar til að taka sæti í tilteknu máli við dóminn þótt sæti einskis hæstaréttardómara sé autt vegna vanhæfis, leyfis eða forfalla. Með lögum nr. 12/2011 var dómurum við Hæstarétt fjölgað tímabundið í 12, en sú fjölgun á að ganga til baka með því að skipa ekki í embætti hæstaréttardómara sem losna frá 1. janúar 2013 fyrr en þess gerist þörf svo þeir verði aftur níu að tölu.

Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að með hliðsjón af því álagi sem hefur verið á Hæstarétti síðastliðin ár hefði vissulega komið til greina að fresta því um sinn að dómurum fækki, en gera verði ráð fyrir því að hugsanlega yrðu ekki næg verkefni fyrir þann fjölda dómara þegar það álag er fylgdi fjármálaáfallinu væri að mestu gengið yfir.

Jafnframt er til þess vísað í athugasemdum að þær hugmyndir sem eru uppi um að koma á fót millidómstigi gætu leitt til þess að málum sem mundu koma til meðferðar fyrir Hæstarétti gæti fækkað. Af þeim sökum er lagt til í frumvarpinu að lögfest sé tímabundin heimild til ársloka 2016 til að setja varadómara til að taka sæti í einstökum málum þótt ekkert sæti dómara við réttinn sé autt vegna vanhæfis, leyfis eða forfalla.

Fyrir nefndinni voru þau sjónarmið reifuð að fyrirsjáanlegt væri að umfangsmikil ágreiningsmál sem og mál frá sérstökum saksóknara komi til kasta dómstólanna á næstu missirum og að fjölskipa þurfi dóm í einhverjum þeirra. Af þeim sökum væri brýnt að lögfest væri tímabundin heimild til ársloka 2016 til að setja varadómara við Hæstarétt.

Allsherjar- og menntamálanefnd ræddi nokkuð um þær fyrirætlanir að koma á laggirnar millidómstigi. Meiri hlutinn bendir í þessu sambandi á niðurstöður starfshóps innanríkisráðherra sem skilaði skýrslu í júní 2011 og sömuleiðis á skýrslu nefndar dómsmálaráðherra um hvernig tryggja megi sem best milliliðalausa sönnunarfærslu í meðferð sakamála frá 1. október 2008. Meiri hlutinn leggur áherslu á mikilvægi þess að tryggð séu sem mest gæði og þar með réttaröryggi í dómskerfinu.

Meiri hlutinn vill því árétta að þeirri vinnu sem nú þegar er hafin við að koma á fót millidómstigi verði hraðað svo að þriggja þrepa dómskerfi verði komið á hér á landi. Í þessu skyni leggur meiri hlutinn til þá breytingu að ákvæði 5. gr. frumvarpsins, eða 46. gr. laganna, um varadómara falli úr gildi 31. desember 2015. Meiri hlutinn vill þó árétta að það er skilningur hans að heimild til að setja varadómara samkvæmt 5. gr. frumvarpsins verði ekki nýtt fyrr en dómarar í Hæstarétti verða færri en 12.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Í stað ártalsins „2016“ í 2. mgr. 6. gr. komi: 2015.

Hv. þingmenn Birgitta Jónsdóttir, Siv Friðleifsdóttir og Tryggvi Þór Herbertsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir þetta álit rita hv. þingmenn Björgvin G. Sigurðsson, formaður nefndarinnar, Skúli Helgason, Þráinn Bertelsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og Magnús Orri Schram.