141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

dómstólar.

475. mál
[15:04]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla að vera stuttorður í þessari umræðu enda hefur hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir rakið flest þau sjónarmið sem ég vildi koma að í málinu.

Það er brýnt að koma á millidómstigi hér og ganga þannig frá að í stað þess að við fjölgum í Hæstarétti til lengri eða skemmri tíma fáum við frekar nýtt áfrýjunarstig milli Héraðsdóms og Hæstaréttar. Það getur tekist á við allan þorra þeirra úrlausnarmála sem er áfrýjað eða kærð áfram innan dómskerfisins þannig að hin raunverulegu grundvallarmál verði viðfangsefni Hæstaréttar og hann geti einbeitt sér að slíkum stærri stefnumarkandi málum.

Varðandi þær breytingar sem þetta frumvarp felur í sér geri ég eins og hún ekki sérstakar athugasemdir við fjölgun héraðsdómara eða framlengingu á heimild til þess að halda tölu héraðsdómara óbreyttri út næsta ár. Þótt ég hafi raunar í fyrri umræðu lýst efasemdum um þörfina fyrir því tel ég að ekki sé ástæða til að gera sérstakan ágreining út af því.

Eins og hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir tel ég að það skorti algjörlega á að sýnt hafi verið fram á með nægilega góðum hætti að sú leið sem valin er varðandi varadómara í Hæstarétti sé sú besta í stöðunni. Það þyrfti að skoða miklu betur. Það er ekki gott þegar veitt er heimild til að skipa varadómara í tilteknum málum, sem í eðli sínu er viðbragð við óvæntum aðstæðum, forföllum, veikindum, vanhæfi einstakra dómara í einstökum málum og svona, sem er jafnopin og til jafnlangs tíma og um ræðir. Það breytir kannski ekki öllu hvort um er að ræða tímann til ársloka 2015 eða 2016, það er engu að síður mjög langur tími. Þótt auðvitað sé betra að stytta hann frekar en hitt er engu að síður í prinsippi eða í grundvallaratriðum um að ræða afar opna heimild sem maður hlýtur að gjalda varhuga við, sérstaklega þegar umfjöllun um hana hefur ekki verið ítarlegri en raun ber vitni. Þótt hv. allsherjarnefnd hafi greinilega farið betur yfir málin milli umræðna en áður hafði verið gert, og ber að þakka fyrir það, stendur vafinn enn eftir í þessu máli sem gerir það að verkum að ég treysti mér ekki til að styðja þá breytingu sem felst í frumvarpinu.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Við komum brátt til atkvæða um þetta en frumvarpið á sér rætur í tímabundnum aðstæðum sem hér eru uppi. Það skortir hins vegar á að mínu mati að það hafi veri metið með fullnægjandi hætti að þær leiðir sem farnar eru til þess að bregðast við þessum aðstæðum séu þær bestu í stöðunni. Það er verið að veita of opna heimild til að skipa hæstaréttardómara í einstökum málum til of langs tíma. Því get ég ekki stutt það frumvarp sem er til umræðu.