141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

tekjustofnar sveitarfélaga.

291. mál
[15:32]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg):

Forseti. Mig langaði í lok umræðunnar að ítreka að við höfum fengið þó nokkuð góða mynd af því sem um ræðir. Við erum hér með gröf yfir tekjur sveitarfélaga og gjöld, ónýttar skatttekjur, þjónustutekjur jöfnunarsjóðs, skatttekjur og gjöld, íbúafjöldaþróun, íbúaþróun í fimm tekjuhæstu sveitarfélögunum og sjö öðrum sambærilegum sveitarfélögum, vannýttar útsvars- og fasteignaskatttekjur o.s.frv.

Ég skil að sjálfsögðu óánægju þessara sveitarfélaga, ég skil hana. Það væri eitthvað skrýtið ef þau mundu ekki kvarta. Ég sagði það berum og beinum orðum þegar við afgreiddum málið hér fyrst að að sjálfsögðu yrðu ekki allir ánægðir með þetta, það liggur fyrir. En ég ætla að leyfa mér að fullyrða að þetta sé réttlætismál, þetta sé sanngirnismál og þegar heildarmyndin er skoðuð sé erfitt að mæla því mót.

Ég vil líka taka fram við lok umræðunnar að ég hef óskað eftir því að áhrif þessara breytinga, afrakstur og árangur, að hann sé mældur og komi áleiðis greinargerð og skýrslu um það eftir því sem fram vindur.

Annars þakka ég fyrir.