141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

barnalög.

476. mál
[17:24]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Guðmundur Steingrímsson) (U) (andsvar):

Herra forseti. Fyrir það fyrsta vil ég spyrja hv. þingmann í hvaða ítarlega rökstuðning sérfræðinga hann er að vísa. Fyrir nefndina í þessu máli komu tveir gestir, annars vegar frá innanríkisráðuneytinu til að kynna frumvarpið og hins vegar kom Hrefna Friðriksdóttir, lögfræðingur og vissulega sérfræðingur, í fundarhléi í að ég held 20 mínútur. Ég hef allt annað hugtak yfir ítarlegt í mínum huga þegar ég tala um ítarlegt álit sérfræðinga. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann eigi við þessa heimsókn þegar hann talar um ítarlegt álit sérfræðinga. Ég upplifði þennan fund þannig að það hafi ekki gefist neitt tóm til að ræða mjög mikilvæg álitamál sem blasa við í þessu máli.

Hv. þingmaður verður að rökstyðja af hverju hann telur það mikið glapræði að láta lögin einfaldlega taka gildi 1. janúar 2013 eins og við ákváðum. Þá verður hann væntanlega að horfa til þess í rökstuðningi sínum að sýslumenn eru nú þegar á grunni gildandi laga að bjóða upp á sáttameðferð og ráðgjöf. Árið 2009 buðu sýslumenn 175 foreldrum um landið allt slíka ráðgjöf sem er í eðli sínu sáttameðferð. Þessi ráðgjöf er ráðgjöf sálfræðinga á vegum sýslumanns sem gengur út á að leita bestu lausnanna frá sjónarhóli barnsins í ágreiningsmálum. Þar að auki eru aðilar úti í samfélaginu sem bjóða viðurkennda sáttameðferð. Það liggur fyrir.

Við höfum rökstutt það ítarlega í nefndaráliti að við teljum engan veginn glapræði eða á einhvern hátt erfitt mál fyrir kerfið að lögin taki gildi 1. janúar 2013. Hins vegar (Forseti hringir.) er mikilvægt að þegnar landsins geti gengið út frá því að orð Alþingis standi (Forseti hringir.) þegar það segir hvenær mikilvægar réttarbætur eigi að taka gildi.