141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

fæðingar- og foreldraorlof.

496. mál
[17:49]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu um Fæðingarorlofssjóð. Mig langar til að spyrja hana: Telur hún eðlilegt þegar menn fara í breytingar af þessu tagi að þær séu svona afturhlaðnar, þ.e. að allur kostnaðurinn komi á næsta kjörtímabili og meira að segja seint á næsta kjörtímabili. Menn eru að lofa fram í tímann. Finnst henni það eðlileg vinnubrögð að láta skattgreiðendur og fjármálaráðherra næstu ríkisstjórnar og næsta kjörtímabils glíma við vandann?

Í öðru lagi er spurningin með fæðingarorlof, hvort hún líti frekar á það sem jafnréttismál en til hagsbóta fyrir barnið og tengsl þess við móðurina. Fæðingarorlofið var upphaflega sett fram sem jafnréttismál, að gera karlmenn jafndýra og konur á vinnumarkaði, og þess vegna var mjög mikilvægt að hafa ekki hámark á greiðslunum eins og það var upphaflega. Síðan hafa menn alltaf verið að setja lægra og lægra hámark á greiðslurnar og nú er svo komið að fjöldi karlmanna fer ekki í fæðingarorlof, nær ekki tengslum við börnin sín, og jafnréttissjónarmiðið er ekki til staðar.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Finnst henni þetta eðlileg þróun og finnst henni betra að lengja fæðingarorlofið og láta jafnréttissjónarmiðin hverfa, láta þau sigla, eða þætti henni betra að hækka hámörkin þannig að fleiri karlmenn færu í fæðingarorlof og nytu þess sem upphaflega var ætlað, að þetta yrði jafnréttismál, mundi auka jafnrétti kynjanna, gera karlmenn jafndýra og konur, auk þess, sem ég tel vera meira virði, herra forseti, það er að auka tengsl karlmanna við börnin sín? Hvort vill hún fara þá leið sem frumvarpið gerir, að lengja tímann, halda hámörkunum, láta jafnréttið sigla eða hina leiðina?