141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

fæðingar- og foreldraorlof.

496. mál
[17:51]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Því er fyrst til að svara við fyrstu spurningu hv. þm. Péturs H. Blöndals að gildistaka laganna er framhlaðin rétt eins og þegar fæðingarorlofinu var breytt eða þegar lög voru samþykkt í lok síðasta áratugar. Þá fór fæðingarorlofið að lengjast í skömmtum, mánuð fyrir mánuð, ár frá ári, og eins og ég fór yfir í ræðu minni mun tryggingagjaldið, 1,08%, standa undir þeirri lengingu.

Varðandi spurningu þingmannsins um það hvort þetta væru fyrst og fremst jafnréttislög eða lög barna: Fæðingarorlofslög eiga að lúta að hagsmunum barna, en það eru að sjálfsögðu hagsmunir barna að þau fái notið samvista við báða foreldra sína. Það að eignast barn hefur gríðarlega mikil áhrif á jafnrétti í samböndum. Þess vegna er mjög mikilvægt að fæðingarorlofslögin séu þannig að þau þjóni hagsmunum barna en þau líti einnig til jafnréttissjónarmiða til að tryggja jafnrétti á vinnumarkaði en jafnframt jafnrétti inni á heimilunum.

Varðandi þakið þar sem þingmaðurinn fullyrðir að karlmenn séu í minna mæli — nú er það þannig að karlmenn taka mjög oft fæðingarorlof, það hefur bara dregið úr því eftir hrun. Það er með engu móti hægt að rekja eingöngu til lækkunar greiðslna, það sýnir skýrsla sem félags- og tryggingamálanefnd óskaði eftir um skerðingu fæðingarorlofsins. Hún sýndi fram á að það væru ekki síður tekjulágir karlar sem ekki færu í fæðingarorlof út af óvissu á vinnumarkaði. Þakið eitt og sér er alls ekki það sem ákvarðar vilja feðra til að fara í fæðingarorlof heldur kann ótti við að missa vinnuna að valda því að þeir taki síður fæðingarorlof.