141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

fæðingar- og foreldraorlof.

496. mál
[18:12]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof sem ég held að hafi tekið gildi árið 2001 frekar en 2002 og er ein framsæknasta lagasetning síðari tíma sem og stórt skref í jafnréttisátt. Ég var aðstoðarmaður Páls Péturssonar félagsmálaráðherra sem flutti frumvarpið á sínum tíma í ágætu samkomulagi við sjálfstæðismenn. Við framsóknarmenn höfum alla tíð viljað standa vörð um fæðingar- og foreldraorlofið sem hefur veitt börnum aukin réttindi til samvista við foreldra sína og síðast en ekki síst aukið réttindi karla til að eyða tíma með börnum sínum á fyrstu mánuðum ævi þess sem er mikilvægur tími.

Árið 2008 var hámark á fæðingarorlofsgreiðslum 535.700 kr. og þegar ríkisstjórnin ákvað að lækka það þak úr 535.700 kr. niður í 300 þús. hafði það mikil áhrif á fæðingar- og foreldraorlofið. Feðrum sem tóku fæðingarorlof fækkaði verulega. Fyrir því eru sérstaklega þær ástæður að margar fjölskyldur hafa einfaldlega ekki efni á því að fara í fæðingarorlof þegar þakið er svo lágt sem raun ber vitni. Ég hef umgengist mikið af nýbökuðum foreldrum á þessu ári og finnst mér það einkenna mjög margar fjölskyldur hversu lítið feður hafa tekið af sínu fæðingarorlofi og er ég þá að tala um þann hóp sem ég umgengst. Það er ekki vegna þess að feðurnir vilji ekki vera heima hjá börnum sínum heldur er einfaldlega af fjárhagslegum ástæðum. Fólk hefur keypt sér íbúðir eða hús á undangengnum árum, lánin hafa stórhækkað í kjölfar efnahagshrunsins og fólk hefur einfaldlega ekki efni á því ef það ætlar að borga sína reikninga að nýta réttindi sín til fulls hvað þessi mál varðar.

Hér er um metnaðarfull áform að ræða hjá ríkisstjórn sem er væntanlega þjökuð af samviskubiti vegna þess að niðurskurður ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki og það hvernig hún hefur umgengist fæðingar- og foreldraorlofið á undangengnum árum hefur leitt af sér mun minni þátttöku, sérstaklega karla. Þannig hefur þessi vinstri velferðarstjórn í raun og veru vegið að því fæðingar- og foreldraorlofi sem ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks kom á laggirnar í upphafi þessarar aldar. Það verður því verkefni nýrrar ríkisstjórnar að byggja það kerfi aftur upp á nýtt. Mér er fyrirmunað að skilja frumvarpið sem hér er lagt til vegna þess að ég tel það ekki nægjanlega undirbúið.

Það kallaði á fjölmarga fundi þegar verið var að undirbúa þessa lagasetningu á sínum tíma. Heilmikið samráð var haft við aðila vinnumarkaðarins, Samtök atvinnulífsins, Alþýðusambandið, m.a. um fjármögnun á kerfinu, réttindi launafólks og fleira. Þessu máli er hent hingað inn í einhverri taugaveiklun á síðustu metrum þingsins þar sem menn lofa bót og betrun um langa framtíð.

Það eru reyndar tveir þættir málsins sem við framsóknarmenn munum styðja. Það er annars vegar að þakið verði hækkað úr 300 þús. kr. upp í 350 þús. kr., það er jákvætt, og síðan varðandi svigrúm foreldra til töku á fæðingarorlofi en með breytingartillögu meiri hlutans er gert ráð fyrir að það verði fært úr 36 mánuðum niður í 24 mánuði. Eins og frumvarpið var þegar það kom til nefndarinnar voru það einungis 18 mánuðir, þ.e. að fólk taki fæðingarorlof innan eins og hálfs árs sem mér heyrist að flestir séu sammála um að sé of lítið svigrúm fyrir fjölskyldur. Hér er sem sagt verið að breyta því í tvö ár enda er veruleikinn sá að sumar fjölskyldur koma börnum sínum ekki á leikskóla fyrr en við tveggja ára aldurinn þannig að það eru jákvæðar breytingar sem við framsóknarmenn munum standa að.

Flaustursleg vinnubrögð og samráðsleysi einkenna enn eina ferðina störf þessarar ríkisstjórnar en það á kýla þetta mál í gegn jafnvel þótt ljóst sé að ekkert raunverulegt samráð hefur verið haft við aðila vinnumarkaðarins. Það er mjög mikilvægt og akkúrat það sem var gert árið 2000 í aðdraganda setningar fæðingarorlofsins en þá hafði ríkisstjórnin mjög viðamikið samstarf við aðila vinnumarkaðarins. Nú er það reyndar þannig að aðilar vinnumarkaðarins eru í orði kveðnu búnir að segja sig frá frekari samskiptum við þessa ríkisstjórn. Hún hefur svo sem ekki haft mikið fyrir því á þessu kjörtímabili að virða gerða samninga við aðila vinnumarkaðarins og því er nú ástandið eins og raun ber vitni.

Við þurfum líka að hafa það í huga, mér finnst það mikilvægt hér í þessari umræðu, að við eru að ræða um að fæðingarorlofið muni kosta 16–17 milljarða. Þess vegna er mikilvægt að við höfum það á hreinu hvort á að borga þessa 16 milljarða af tryggingagjaldi eða greiða þá úr ríkissjóði. Hvaða leið ætla menn að fara varðandi fjármögnun á þessu kerfi? Þeirri spurningu er einfaldlega ósvarað og hún hefur ekkert verið rædd við aðila vinnumarkaðarins eins og ég nefndi hér áðan. Mörgum spurningum er ósvarað.

Ég tel það óábyrgt og í raun og veru lýsa ákveðinni taugaveiklun og samviskubiti ríkisstjórnarinnar að henda þessu máli hingað inn og ætla að afgreiða það á nokkrum dögum í gegnum þingið án þess að eiga viðhlítandi samstarf við aðila vinnumarkaðarins.

Fyrir síðustu kosningar lofaði hæstv. ráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, því að hin norræna velferðarstjórn mundi hlífa þeim sem ekki höfðu breiðustu bökin. Það var loforð þessarar norrænu velferðarstjórnar og undir það tók Samfylkingin. Hverjar hafa svo efndirnar verið? Jú, forgangsmál stjórnarinnar var að vega að Fæðingarorlofssjóði og draga stórlega úr réttindum barnafólks sem hafði nýlega lent í efnahagshruni þar sem skuldirnar hækkuðu. Það voru nú efndirnar á kosningaloforðum fyrir kosningarnar árið 2009. Nú koma þeir sömu og leggja fram loforð sín langt inn í næsta kjörtímabil. Maður veltir því fyrir sér hvort það sé holur tónn í þeim loforðum vegna þess að í langtímaáætlun með ríkisfjármálum sem þessi sama ríkisstjórn hefur gefið út, eða hæstv. fjármálaráðherra, er ekki minnst orði á að það eigi að auka réttindi barnafólks, reyndar bendir fjármálaráðuneytið sérstaklega á það.

Þannig að um leið og ég segi það að við framsóknarmenn viljum styðja fæðingar- og foreldraorlof fyrir barnafjölskyldur í landinu finnst mér einfaldlega ekki trúverðugt hvernig ríkisstjórnin leggur af stað í þessa vegferð. Ég hefði gjarnan viljað fá að taka þátt í henni. Það hefði kannski verið skemmtilegt núna á síðustu metrum þessa kjörtímabils ef við hefðum farið í víðtækt samstarf þvert á flokka og rætt við alla hagsmunaaðila, m.a. velt þeirri spurningu fyrir okkur hvort rétt sé að lengja fæðingarorlofið úr níu mánuðum í tólf eða nota fjármunina til þess að hækka þakið. Það eru örugglega skiptar skoðanir um það. Það eru heilmörg atriði sem ég tel að ábyrg stjórnvöld hefðu átt að velta fyrir sér áður en slíkt frumvarp var lagt fram í þinginu.

Ég fordæmi í raun og veru hvernig ríkisstjórnarflokkarnir hafa staðið að málinu. Um leið ítreka ég að það verða áherslumál okkar framsóknarmanna í aðdraganda næstu kosninga, og við það verður staðið, að efla fæðingar- og foreldraorlofið vegna þess að það er búið að vega svo herfilega að því kerfi á undangengnum árum í boði þessarar ríkisstjórnar. Þar kemur forgangsröðun stjórnarinnar í ljós.

Þannig að ég á bágt með að leggja mikinn trúnað á að þessum stjórnmálaflokkum sé alvara varðandi þær fyrirætlanir sem við ræðum hér. Við framsóknarmenn viljum koma ábyrgt að þessum málum. Við viljum vinna að framfaramálum eins og því að efla fæðingar- og foreldraorlofið þvert á flokka, ræða það við helstu hagsmunaaðila og velta fyrir okkur þeim spurningum sem ég nefndi áðan. Er þakið í dag, sem er 350 þús., of lágt? Hömlum við því kannski þannig að feður taki sinn hluta af fæðingarorlofinu? Er hyggilegt að skipta orlofinu þannig á milli foreldra að það séu fjórir mánuðir á hvort foreldrið og fjórir mánuðir séu valkvæðir? Eða á skiptingin að vera eins og kemur fram í breytingartillögu meiri hluta nefndarinnar, fimm mánuðir á hvort foreldri og tveir mánuðir valkvætt? Þá veltir maður þeirri spurningu fyrir sér hvort við séum í raun og veru að bæta eitthvað hag margra fjölskyldna af því að þakið er eins lágt og raun ber vitni og því í raun og veru ekki um mikla réttarbót að ræða vegna þess að annar makinn tekur hugsanlega ekki þá fimm mánuði sem þar bjóðast. Fjölmörgum spurningum er ósvarað í þessu máli.

Ég vil um leið og ég ítreka enn og aftur að við framsóknarmenn viljum bæta fæðingar- og foreldraorlofið segja að mér finnst mér ábyrgðarlaust hvernig að þessu máli er staðið. Fjármögnunin er óljós. Á atvinnulífið að greiða reikninginn? Á ríkisstjórnin að greiða reikninginn? Hvert á þakið að vera til lengri tíma litið? Hvernig á að skipta því á milli foreldra?

Ég hefði viljað sjá mun vandaðri vinnubrögð og að menn gengju fram af meiri nærgætni gagnvart þessu mikilvæga verkefni sem fæðingarorlofið er. Fyrir hönd okkar framsóknarmanna vil ég lýsa yfir vonbrigðum með það en um leið staðfesta að minn flokkur, Framsóknarflokkurinn, mun líkt og hann gerði þegar fæðingarorlofið var sett af stað í upphafi í ágætu samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn, standa vörð um þetta mikilvæga kerfi.