141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[19:46]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Frumvarpið sem við ræðum er bæði jákvætt og neikvætt og þar á milli. Það er óskaplegt torf að fara í gegnum þær breytingartillögur sem hafa verið ræddar. Við erum búin að sitja núna í einn og hálfan tíma að reyna að glöggva okkur á atkvæðagreiðsluskjalinu og ég verð að segja eins og er að ákvæðin um gildistökuna eru mér ekki skiljanleg. Ég skil ekki breytingartillögurnar um gildistökuna og ýmislegt fleira skil ég ekki og ég mun væntanlega sitja hjá við þær breytingartillögur sem ég skil ekki. Annað er jákvætt og sumt er neikvætt og þá munum við sitja hjá en við munum sem sagt greiða atkvæði með því sem er jákvætt og greiða atkvæði á móti því sem er neikvætt.

Þetta er alveg óskaplega mikil og flókin lagasetning út og suður og þegar þetta er unnið svona á kvöld- og næturfundum og með svona miklu hraði eru stórauknar líkur á mistökum.