141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[19:47]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Frá því að ég tók sæti á Alþingi í nóvember 2008 held ég að ég hafi setið í nánast hverri einustu þingnefnd og ég hef fjallað um hina ýmsu málaflokka. En þrátt fyrir þessa reynslu hefur verið algjörlega ný upplifun að setjast í efnahags- og viðskiptanefnd og fjalla í fyrsta skipti um bandorminn svokallaða þar sem ég sat við að skrifa nefndarálit fram undir það síðasta með stöðugum breytingum í framhaldi af þeim breytingartillögum sem komu frá meiri hlutanum. Það hefur líka verið einkar athyglisvert að fara í gegnum þetta atkvæðagreiðsluskjal og vera enn að taka á móti breytingartillögum frá meiri hlutanum.

Í þessum bandormi vil ég nefna sérstaklega að verið er að leggja til nýtt virðisaukaskattsþrep á ferðaþjónustuna. Það er þó búið að gera breytingar á því í þriðja sinn og frestast breytingin fram í september ef tillögur meiri hlutans ná fram að ganga. Það er búið að gera margar breytingar á fyrirkomulagi um vörugjöld ef það er einhver leið að ná að taka inn 500 milljónir í gegnum bílaleigur á næsta ári, auk þess sem bakkað er með ýmsar (Forseti hringir.) verðlagshækkanir. Svikin loforð gagnvart aðilum vinnumarkaðarins endurspeglast hins vegar enn í þessu frumvarpi, ekki hvað síst hvað varðar afleiður og skattlagningu á vexti. (Forseti hringir.) Ég efast ekki um að hér mundi einn forustumaður verkalýðshreyfingarinnar, Gylfi Arnbjörnsson, nefna sérstaklega skattlagningu á lífeyrissjóðina.