141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

barnalög.

476. mál
[20:40]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um að mörgu leyti einfalt en erfitt mál. Það eru ákveðin lagatæknileg og samræmingarmál varðandi orðalag og síðan einnig um það að við frestum gildistöku þessara laga. Upphaflega var lagt til að við mundum fresta gildistökunni um sex mánuði en nefndin telur eðlilegt að við styttum frestunina og höfum hana einungis þrjá mánuði. Staðan er þannig að því miður virðist kerfið ekki vera tilbúið og hugsanlega vantar fjármagn til að mikilvægur þáttur þessara laga geti orðið að veruleika. Til að jafnviðkvæmur málaflokkur og barnalög eru lendi ekki í neinum réttarfarslegum vandræðum leggjum við því til að fresta gildistökunni til 1. apríl 2013.

Þó að við hefðum gjarnan viljað að það væri ekki gert teljum við annað óábyrgt.