141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

barnalög.

476. mál
[20:41]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Þetta frumvarp er í raun og veru tvískipt. Fyrstu þrjár greinarnar eru sjálfsagðar og fjalla um samræmingaratriði í lögunum.

4. gr. er hins vegar verulega umdeilanleg. Í henni er fjallað um að fresta mjög mikilvægum réttarbótum en við samþykktum einróma 19. júní sl. að fresta gildistöku þeirra til 1. júlí, um sex mánuði. Ég tel það skapa verulega réttaróvissu að spila svona hringlandaleiki með gildistökuákvæði af þessu tagi og á svo veikum rökum sem raun ber vitni.

Því er haldið fram að ákveðið þjónustuform sem lögin kveða á um sé ekki til. Ég held því fram að það sé rangt. Það er verið að veita þjónustu í samfélaginu í dag sem heitir sáttameðferð. Það er vel hægt að veita hana 1. janúar, það er verið að veita hana núna og það er hægt að veita hana 1. júlí. Það er fullkomlega ástæðulaust að fresta á þessum grunni gildistöku þessara mikilvægu ákvarðana með tilheyrandi óvissu fyrir fólk (Forseti hringir.) í landinu.

Ég mæli með því að fólk samþykki breytingartillögu okkar hv. þm. Unnar Brár og Eyglóar Harðardóttur. [Hlátur í þingsal.]