141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

barnalög.

476. mál
[20:45]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Barnalögin kveða á um verulegar réttarbætur fyrir börn á Íslandi, mannréttindabætur. Tilteknir þættir þessara laga kalla á peninga. Það er talið að það muni kosta um 60 millj. kr. á ári að framfylgja þessum lögum. Alþingi hefur samþykkt 30 millj. kr., helminginn af þessari upphæð. Þess vegna er lagt til að lögin taki gildi 1. júlí þannig að þau gildi hálft árið og við séum ekki að útvatna framkvæmdina.

Það er það sem þessi atkvæðagreiðsla stendur um, hvort við ætlum að standa að baki lögunum þannig að það sé innstæða fyrir þeim réttarbótum sem við ætlum að veita íslenskum börnum. Um það fjallar þessi atkvæðagreiðsla nú.