141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

barnalög.

476. mál
[20:57]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég hvet þingmenn til að styðja þessa tillögu. Það eru mörg tækifæri til að óska eftir frekari fjárframlögum til að koma til móts við þær lagabreytingar sem Alþingi samþykkti (Gripið fram í.) fyrir þó nokkru. (Gripið fram í: Hvað kostaði ekki …?)

Í umsögn fjárlagaskrifstofunnar sem við treystum á við afgreiðslu fjölmargra frumvarpa kemur fram, eins og kom fram í máli hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar, að verið er að tala um 35–40 milljónir. Þegar óskað var eftir upplýsingum við meðferð þessa máls um hvort fyrir lægi kostnaðaráætlun fékk nefndin þær upplýsingar að þær lægju ekki fyrir. Það eina sem við höfum til að byggja á er þessi umsögn fjárlagaskrifstofunnar. Alþingi er þegar búið að samþykkja að setja 30 milljónir í þetta og ég efast ekki um að Alþingi muni bregðast mjög jákvætt við ef það kemur í ljós að það er nauðsynlegt að setja (Forseti hringir.) meiri peninga í þetta. (Gripið fram í.)