141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

fæðingar- og foreldraorlof.

496. mál
[21:03]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í tíð þessarar ríkisstjórnar hafa útgjöld Fæðingarorlofssjóðs lækkað um 4,5 milljarða frá árinu 2009, þ.e. um 35% að raungildi. Núna á kosningavetri er skyndilega lagt fram frumvarp þar sem í raun eru opnaðar allar gullkistur og sagt að það sé auðvelt að tvöfalda útgjöldin til Fæðingarorlofssjóðs.

Það er einn galli á þessari gjöf Njarðar og hann er sá að gert er ráð fyrir því að á næsta ári komi bara til greiðslu 480 millj. kr. Hitt á síðan að taka að láni í framtíðinni, nokkuð sem stjórnvöld framtíðarinnar eiga að sjá um að fjármagna.

Þetta er mjög óábyrgt. Í sjálfu sér eru mjög góð og jákvæð markmið í frumvarpinu. Vitaskuld viljum við hækka greiðslurnar í Fæðingarorlofssjóð til þeirra foreldra sem þeirra njóta. Vitaskuld viljum við gjarnan að fæðingarorlof sé lengra. Við verðum hins vegar að velja og hafna, við verðum að forgangsraða og að mati okkar sjálfstæðismanna er núna brýnast að vinna til baka smám saman eftir því sem efni og ástæður leyfa (Forseti hringir.) þær skerðingar sem hæstv. ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir og fengið samþykktar og að því búnu taka afstöðu til þess hvort lengja eigi fæðingarorlofið.