141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

fæðingar- og foreldraorlof.

496. mál
[21:05]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það var í tíð Páls Péturssonar félagsmálaráðherra sem ný lög um fæðingar- og foreldraorlof voru sett, í upphafi þessarar aldar. Því miður hafa á undanförnum árum framlög til fæðingarorlofs og réttindi foreldra verið skert stórlega af þessari ríkisstjórn. Nú virðist samviskubitið eitthvað farið að naga stjórnarliða og hér eru sett fram mjög háleit markmið sem við framsóknarmenn fögnum vegna þess að við viljum standa vörð um sjóðinn.

Hins vegar hefur nánast ekkert samráð verið haft við aðila vinnumarkaðarins, m.a. um hver á að greiða kostnaðinn við þessar breytingar, og ferlið allt er í skötulíki. Við þurfum að velta fyrir okkur spurningum um hvert væri æskilegt þak á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði vegna þess að feður hafa nýtt sér fæðingarorlof í minna mæli en við hefðum viljað. Við munum styðja það sem til framfara horfir í þessu máli, þ.e. hækkun á þakinu o.fl., (Forseti hringir.) en í heild sinni munum við sitja hjá vegna þess að hér er um að ræða mál sem þarfnast mun betri undirbúnings.