141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum og tollalög.

272. mál
[21:40]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um dálítið flókið mál sem snýr að því að markmið þessara laga snúa að því að vernda íslenska framleiðslu og meta hvenær er skortur. Ég var með nokkra fyrirvara við þetta mál en tel að það hafi verið komið til móts við þá, bæði í nefndaráliti sem og í þeim breytingum sem við höfum gert á þessu, m.a. í því að þegar menn hafa komist að því að það er vöruskortur verði bæði metið magn og tími sem sá skortur er.

Sú breytingartillaga sem við hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, 1. flutningsmaður, og einnig hv. þm. Jón Gunnarsson kynntum varðandi verðmiðlun á mjólk var aftur á móti kölluð til baka og nefndin mun fara betur yfir það mál í janúar þar sem ekki vannst tími til þess núna.