141. löggjafarþing — 61. fundur,  21. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[23:36]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég ætla einungis að gera stutta athugasemd við síðustu umræðu þessa máls en ég kom inn á nokkrar athugasemdir við atkvæðaskýringu þegar greidd voru atkvæði milli 2. og 3. umr.

Eins og sjá má af breytingartillögum sem er verið að leggja fram við 3. og síðustu umræðu þessa máls hefur minni hluti fjárlaganefndar, sem borið hefur málið uppi, að einhverju leyti reynt að taka tillit til þeirrar gagnrýni sem fram er komin. Ég verð nú að segja að þær breytingartillögur sem hér eru bornar upp hafa ekki einu sinni fengið umræðu í fjárlaganefndinni og hlýtur það að vekja athygli. Það sem öllu skiptir samt sem áður er það að í frumvarpinu eins og það kemur núna til atkvæða er ekki hægt að sjá af efni málsins að þeir sem að málinu standa hafi dregið nokkurn einasta lærdóm af fyrri sölu eignarhluts ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

Það vekur alveg sérstaka athygli vegna þess að þeir sem að málinu standa eru einmitt hinir sömu og hafa verið hvað háværastir í gagnrýni sinni á fyrri ríkisstjórnir þegar þær seldu eignarhluti. Það hlýtur að vekja alveg sérstaka athygli. Það er ekkert hægt að lesa út úr málinu um að menn hafi lært eitthvað.

Þvert á móti kemur fram breytingartillaga við 3. umr. þessa máls þar sem segir:

Alþingi hefur ályktað að skipa rannsóknarnefnd um einkavæðingu þriggja banka á tímabilinu 1998–2003. Þegar niðurstöður þeirrar rannsóknar liggja fyrir skal fjármála- og efnahagsráðherra endurskoða einstök ákvæði þessara laga til samræmis við ábendingar rannsóknarnefndarinnar ef tilefni þykir til.

Við vitum sem sagt ekkert hvað gæti mögulega verið gagnrýnivert við fyrri einkavæðingar en það kynni að koma í ljós í þessari rannsókn og þegar henni hefur verið lokið teljum við ástæðu til að taka tillit til þeirrar niðurstöðu.

Þessu er öllu vísað inn í framtíðina. Það er ekkert efnislegt í málinu sjálfu vegna þess sem gerst hefur í fortíðinni þrátt fyrir alla þá þungu dóma sem hafa fallið í hinni pólitísku umræðu. Það hlýtur að vekja alveg sérstaka athygli.

Ég ætla að benda á eitt atriði sem rannsóknarnefnd Alþingis tók sérstaklega út. Hvað sagði rannsóknarnefnd Alþingis um einkavæðingu bankanna? Jú, hún sagði að það vekti athygli nefndarinnar að í fyrra einkavæðingarferli virðist hafa verið horfið frá hugmyndinni um dreift eignarhald í söluferlinu og niðurstaðan varð á endanum að leita til kjölfestufjárfestis. Rannsóknarnefnd Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að þetta hefði á ýmsan hátt verið óheppilegt og til að koma í veg fyrir stefnubreytingu af þeim toga hefði verið skynsamlegast að binda þessa hluti í lög fyrir fram. Nú kemur nýja ríkisstjórnin með frumvarp þar sem ekkert er tekið á hlutum eins og þessum. Fjármálaráðherrann fær opna heimild til að selja 30% hlut í Landsbankanum annað hvort til einhvers eins aðila, sem þá væntanlega yrði talinn kjölfestufjárfestir í Landsbankanum, eða í dreifðu eignarhaldi. Grundvallarágreiningsmálið er ekkert leyst. Það er skilið eftir opið og ráðherrann fær einn og óstuddur heimild til þess að haga því að eigin vild.

Hvað situr þá eftir af allri háværu gagnrýninni á fyrri einkavæðingu Landsbankans? Það situr ekkert eftir, ekki neitt. Það situr ekkert eftir vegna þess að málið sem hér er verið að mæla fyrir geymir engan lærdóm, enga leiðbeiningu. Í raun og veru er um tóman ramma án innihalds að ræða, óþarfa og ótímabæra löggjöf og í því samhengi er auðvitað tvennt sem kemur til. Það er annars vegar að þetta er vondur tími til að selja eignarhluti í fjármálafyrirtækjunum. Menn eiga að hafa tímasetningu slíkrar sölu þannig að sem hæst verð fáist fyrir eignarhlutinn. Það er ekki líklegt að það fáist hátt verð fyrir eignarhluti í fjármálafyrirtækjum á næstu missirum.

Hins vegar er það að ríkisstjórnin sjálf segist ekkert sérstaklega stefna að því að selja hlutinn þannig til hvers þá að vera að þessu? Það er ekki hægt annað en að vera á móti þessu máli.