141. löggjafarþing — 61. fundur,  21. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[23:54]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Eygló Harðardóttir minntist á hvatningu mína til þingmanna um að samþykkja breytingartillögu frá hv. þm. Birni Vali Gíslasyni. Ég var ekki búin að lesa eða liggja yfir þessari breytingartillögu. Ég er sammála henni að því leytinu til að hér er verið að taka til baka valdaafsal Alþingis, en það er jafnframt verið að heimila ráðherra að selja eignarhluti í bönkunum. Ég vil því koma á framfæri bæði við þingmanninn og aðra hér inni að ég mun sitja hjá við atkvæðagreiðslu um þessa breytingartillögu þar sem ég tel að núna sé ekki rétti tíminn til að selja eignarhluti ríkisins. Það er m.a. vegna þess að það er lágt verð á bönkum í dag og ef við ætlum að selja þeim sem eru fastir hér inni í hagkerfinu með peninga eignarhluti í einhverjum eignum ættum við að reyna að fá sem hæst verð fyrir þá til að lækka þannig snjóhengjuna.