141. löggjafarþing — 61. fundur,  22. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[00:08]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst það vel í lagt hjá hv. þingmanni að telja að einkavæðingin 2002 hafi verið vel ígrunduð svona miðað við niðurstöður þess máls að lokum. En ókei, það má vera hans skoðun í því.

Þar var ekki um það sama að ræða og í því frumvarpi sem hér um ræðir. Um hvað erum við að tala hér? Hér er Bankasýsla sem fer með eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum, það er hún sem leggur mat á það hvort og þá hvernig á að selja viðkomandi eignarhluti, hve mikið o.s.frv., gerir tillögu um það til ráðherra. Það er ráðherra sem leggur síðan mat á það.

Hvað gerir ráðherra? Hann leggur málið fyrir tvær þingnefndir, efnahags- og viðskiptanefnd og fjárlaganefnd. (Gripið fram í: Og hvað?) Það er lagt fyrir Seðlabankann að auki, til að leggja mat á þetta, og til viðbótar er kveðið á um að um heimild ráðherra til að ganga frá málinu, ljúka því hér, sé aðeins kveðið í fjárlögum. Þetta er ljósár frá því einkavæðingarferli sem fór fram við upphaf ársins 2002, frá 1998–2002. (Gripið fram í.) Það var engin lagaumgjörð til um það. Það er þó búið að slá hér marga varnagla, hverja af öðrum.

Vel má vera að einhverjum finnist það ekki nóg, það sem hér er gert. Tekið hefur verið tillit til þeirra athugasemda sem fram koma í umræðunni. Málið hefur verið til umræðu hér í þinginu frá 25. september, virðulegi forseti, í nærri þrjá mánuði. Í nærri þrjá mánuði hefur þetta mál verið til umfjöllunar í þinginu, í fjárlaganefnd, í umsagnarferli. Fjórar umsagnir hafa borist um málið til fjárlaganefndar og tekið var tillit til allra þeirra athugasemda sem þar komu fram.