141. löggjafarþing — 61. fundur,  22. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[00:10]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég man að vísu ekki eftir að hafa notað þau orð að einkavæðingin sem vísað var til hafi verið vel ígrunduð, en látum það liggja á milli hluta. Hv. þingmaður segir hins vegar, um frumvarpið sem hefur verið unnið á handahlaupum hér í dag, og öllum er það ljóst sem lesa breytingartillögu hans: Það eru svo margir varnaglar, það þarf meðal annars að bera það undir efnahags- og viðskiptanefnd.

Virðulegi forseti. Það er svolítið kaldhæðnislegt að hv. þingmaður segi þetta vegna þess að efnahags- og viðskiptanefnd hefur ekki haft tækifæri til þess að koma með álit sitt á frumvarpinu. Við höfum rætt þetta í nefndinni. Ég ætla ekki að tala fyrir hönd margra en mér býður í grun — og hef ég hlustað á aðra hv. þingmenn úr efnahags- og viðskiptanefnd — að allir hafi miklar skoðanir á þessu og telji að skoða þurfi þetta mjög vel. Samt sem áður hefur ekki enn verið komið með álit frá hv. efnahags- og viðskiptanefnd um málið.

Ég vil líka nefna annað atriði. Hv. þingmaður segir að Bankasýslan eigi að fara með eignarhlutina í fjármálafyrirtækjunum. En þau hafa ekki gert það, virðulegi forseti, það stendur skýrt í lögunum. En þegar kom að SpKef og Byr þá ákvað hæstv. ríkisstjórn bara að sleppa því. Við erum ekki bara að tala um þessa risaeinkavæðingu, sem er sko miklu stærri en sú einkavæðing sem hv. þingmaður vill alltaf tala um, að þar voru engar reglur. Og hvað með VESTIA? Af hverju er það ekki upplýst? Hv. þingmaður vill kannski upplýsa okkur vegna þess að það er ennþá fullkomið leyndarmál: Hvert var söluverðið á VESTIA-fyrirtækjunum? Þegar VESTIA-fyrirtækin voru einkavædd, hvert var söluverðið? Það er búið að spyrjast fyrir um þetta hvað eftir annað og hv. þingmaður ætti kannski, úr því að við erum að spjalla um þetta núna, að upplýsa það.