141. löggjafarþing — 61. fundur,  22. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[00:20]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mjög áhugavert að hlusta á hæstv. ráðherra ræða þetta. Eins og hann lýsir þessu afhenti hann kröfuhöfunum bankana og vill alls ekki undir neinum kringumstæðum kalla það einkavæðingu. Þetta gerðist nú ekki af sjálfu sér. Menn sátu ekki bara og fengu bréf einhvers staðar frá almættinu um að þetta ætti að vera svona.

Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra í mestu vinsemd, af því að við höfum ekki alltaf tækifæri til að spyrja hann út í þessi mál, hvort hann hafi talið skynsamlegt að gefa leyfi til að stofna þessi eignarhaldsfélög til að kröfuhafarnir og vogunarsjóðirnir gætu í raun átt bankana eða hvort hefði verið betra að standa öðruvísi að málunum eftir að hann lítur á þau. Þetta hefur verið gagnrýnt nokkuð og mörgum fundist það óskynsamlegt út frá til dæmis þeim forsendum að þeir aðilar sem ráðleggja okkur töldu að skuldaleiðréttingunum ætti að vera stýrt af ríkinu. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji að sú leið sem var farin hafi verið hárrétt.

Sömuleiðis varðandi aðkomu hans að öðrum þeim fjármálafyrirtækjum sem við höfum séð eftir hrun. Það má færa rök fyrir því að það hafi verið hæpið að nýta neyðarlögin í það því það var svo sannarlega ekki nein neyð í því. Við getum talað um VBS, Sögu, SpKef, Byr og jafnvel fleiri stofnanir, einkum í ljósi þess að hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn sendu sérstaklega yfirlýsingu í mars árið 2009 þar sem sagði að öllum áföllum á fjármálamarkaði væri nú lokið. Því miður er það ekki raunin.

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji að hér hafi verið farið með hlutina eins og best var á kosið.