141. löggjafarþing — 61. fundur,  22. des. 2012.

skattar og gjöld.

101. mál
[00:40]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Eins og greint var frá í þinginu í dag varð nokkur umræða í umfjöllun um þetta mál um hvort endurreikna ætti út vaxtabætur sem hefðu verið ofgreiddar þeim sem voru með gengislán eftir þá dóma sem fallið hafa.

Á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í kvöld voru kynnt drög að lagabreytingu sem hafði verið unnin fyrir hv. þm. Kristján Þór Júlíusson sem laut að því að setja fyrirvara við áður samþykktar ívilnanir að þessu leyti við útgreiðslu á næsta ári. Í ljósi þess að þær ívilnanir voru lögfestar af Alþingi í desember fyrir tveimur árum þegar lögfest voru lög nr. 151/2010, sem síðar reyndust fela í sér ólögmætar afturvirkar, íþyngjandi ákvarðanir fyrir þá sem hér eiga hlut að máli, er það álit mitt að óvarlegt sé að samþykkja ákvæði sem kynni að vera sama marki brennt að óskoðuðu máli eða lítt skoðuðu máli seint á þessu kvöldi. Það hefur því orðið að samkomulagi að ég mun taka þetta málefni til umfjöllunar í byrjun janúar eins og ýmis önnur efni sem ekki er vert að taka til afgreiðslu á næturfundum rétt fyrir jól heldur á að fara yfir í dagsbirtu, vinna vel og klára þá.