141. löggjafarþing — 61. fundur,  22. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[00:44]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Helgi Hjörvar fór nákvæmlega yfir það af hverju við ættum kannski að vinna þessa hluti aðeins öðruvísi, en þetta frumvarp sem við erum að afgreiða sem lög frá Alþingi einkennist af skattahækkunum og sviknum loforðum, sem er ekkert sérstaklega fallega gert af hæstv. ríkisstjórn svona rétt fyrir jólin. En það er von, virðulegi forseti, því að við erum hér með tvær breytingartillögur sem ég hvet hv. þingmenn til þess að styðja.

Annars vegar er það tillaga sem snertir þá skuldsettu einstaklinga sem voru að skuldbreyta og voru í góðri trú um að þurfa ekki að greiða stimpilgjöld, en það féll milli skips og bryggju vegna mistaka hjá okkur og þeir greiddu stimpilgjöld á þessu ári Við leggjum til að þeir fái það endurgreitt.

Síðan er hitt, virðulegi forseti, að hér er mál sem er augljóslega gallað og miklar deilur hafa verið (Forseti hringir.) og stærsti hluti þingmanna hefur verið á móti, í það minnsta í orði. Þeir hafa núna tækifæri til að greiða atkvæði með því að gildissvið virðisaukaskatts á gistingu vari frá 1. september til 1. janúar 2014. (Forseti hringir.) Þessi tillaga er sérstaklega lögð fram til að allir þeir sem hafa tjáð sig um þetta mál geti verið á því og greitt því atkvæði. Við munum fylgjast vel með því, virðulegi forseti.