141. löggjafarþing — 61. fundur,  22. des. 2012.

barnalög.

476. mál
[00:51]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Nýju barnalögin marka tímamót og eru mikilvæg réttarbót fyrir börn. Þau koma til framkvæmda á komandi ári. Í þessum lögum eru ýmsar nýjungar sem kalla á ný verkferli, nýja þekkingu og nýja sérfræðikunnáttu. Það var mat þeirra sem hafa undirbúið framkvæmd þessara laga að þau þyrftu að fá meira svigrúm og óskuðu eftir því að Alþingi gæfi nokkra mánuði til þess að undirbúa framkvæmd laganna. Við töldum að við þyrftum að verja 60 millj. kr. til þessa verkefnis ef vel ætti að vera og það er alvara sem er að baki okkar ásetningi.

Alþingi ákvað fyrr í kvöld að verða ekki við óskum þessa fólks sem á að framkvæma lögin og ákvað jafnframt að 30 milljónir, ekki 60 milljónir, mundu duga til verksins. (Forseti hringir.) Mér þykir ekkert sérstaklega bjart yfir þessum vinnubrögðum þótt margir sem höfðu sig mest í frammi kenni sig við bjarta framtíð. Hitt er svo annað að ég ítreka að þessi lög boða tímamót og eru merkileg og góð fyrir lítil börn á Íslandi og við munum að sjálfsögðu gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að láta þau virka eins og lagt var upp með, þrátt fyrir þessar breytingar sem Alþingi gerði á lögunum hér fyrr í kvöld.