141. löggjafarþing — 61. fundur,  22. des. 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 158/2012 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn.

278. mál
[01:08]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Það er rétt að vekja athygli þingheims sérstaklega á þeirri tillögu sem hér er til umfjöllunar. Á þskj. 704 er nefndarálit frá utanríkismálanefnd.

Hér er verið að fjalla um mikilvægt mál sem er reglugerð til að greiða fyrir þróun á sviði textíliðnaðar. (Gripið fram í: Já.) Í henni er kveðið á um skilyrði markaðssetningar textílvara (Gripið fram í.) og trefjasamsetningu viðkomandi vöru, þ.e. textílvara. Nú er mér ekki kunnugt um það, virðulegur forseti, hvort þetta tekur t.d. til íslenska lopans, [Hlátur í þingsal.] en það kann að vera að það sé hægt að ganga úr skugga um það, hvort t.d. fatnaður úr þessum tilteknu textílvörum sé heimilaður í þingsal eða ekki, (Gripið fram í.) og enn síður hvort taubleyjur falla hér undir [Hlátur í þingsal.] eða tausmokkar eða hvað það nú heitir allt. [Hlátur í þingsal.]

Framsögumaður nefndarinnar í þessu máli er hv. þm. Jón Bjarnason, sem er fjarverandi. [Hlátur í þingsal.]

Ég veit ekki hvað það er, frú forseti, sem kætir þingmenn af þessu tilefni, en við afgreiðslu nefndarinnar voru þingmennirnir Árni Páll Árnason, Bjarni Benediktsson, Helgi Hjörvar og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson illu heilli fjarverandi. [Hlátur í þingsal.]

Undir nefndarálitið rita Árni Þór Sigurðsson, Jón Bjarnason, Gunnar Bragi Sveinsson, Mörður Árnason og Ragnheiður E. Árnadóttir.

Ef mér láðist að geta þess þá leggur nefndin til að þessi þingsályktunartillaga verði samþykkt.