141. löggjafarþing — 61. fundur,  22. des. 2012.

loftslagsmál.

381. mál
[02:08]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta álitsgerð þó að ég sé henni ekki sammála. Ég sagði áðan að hún væri hluti af þeim ágreiningi sem uppi hefur verið hér í 20 ár og ég virði þær skoðanir sem þar koma fram.

Ég kem hér upp til þess einungis að leiðrétta það sem ég taldi mig hafa gert kurteislega áður, misskilning þingmannsins og félaga hans í minni hluta nefndarinnar um Efnastofnun Evrópu, því að það markaðsleyfi — sem þeir segja í greinargerðinni og þingmaðurinn endurtók hér í ræðunni — sem verið er að kynna núna með frumvarpi sem er til umfjöllunar í umhverfis- og samgöngunefnd er ekki nýtt. Um það er fjallað í 6. gr. laga nr. 45/2008.

Með leyfi forseta, les ég úr 2. mgr. þetta:

„Framleiðandi eða innflytjandi efnis sem háð er markaðsleyfi skal sækja um slíkt leyfi til Efnastofnunar Evrópu.“

Um þetta fjallaði ég töluvert í ræðunni en ætla nú að sleppa því að vera móðgaður yfir því að hv. þingmaður skuli ekki hafa tekið eftir því. En það er sem sé þannig að þetta er þegar fyrir hendi og ég talaði sérstaklega um það í ræðu minni að hér væri um að ræða hliðstætt dæmi við það sem við erum að fjalla um og að valdaframsalið sjálft gengi jafnvel enn þá lengra og í raun og veru miklu lengra en það sem við erum að tala um.

Úr því að þetta ber á góma, forseti, er rétt að minna á að þetta mál var samþykkt samhljóða á Alþingi 30. maí árið 2008 og meðal þeirra 54 sem stóðu að samþykkt málsins voru þeir Árni Johnsen, Birgir Ármannsson, hv. þingmenn núna, og Atli Gíslason.