141. löggjafarþing — 61. fundur,  22. des. 2012.

loftslagsmál.

381. mál
[02:12]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni í því að þörf er á rækilegri skoðun allra þessara vandamála í einu. Í bókun, minnir mig, sem utanríkismálanefnd gerði í lok þingsins í fyrra, í tilefni af samvinnu við Frakka um ferðamannaskilríki til Íslands, var því heitið að gera það, og við höfum ekki komist til þess enn þá, en ég vonast til þess að það verði eftir áramótin að þá förum við betur í það.

Alveg á sama hátt og ég virði sjónarmið hv. þingmanns virði ég líka rétt hans til þess að skipta um skoðun og það hefur hann greinilega gert frá 30. maí 2008 til dags dató. Ég virði það hins vegar ekki að menn haldi sig ekki við staðreyndir í málinu og ég bið hv. þingmann að gera það framvegis. Efnalög þau sem hann er að tala um hafa þegar verið samþykkt, þau voru samþykkt 2008 með nákvæmlega því ákvæði sem hann er hér að tala um að sé í gangi núna, og ég tel að það ákvæði feli í sér meira valdaframsal eða valddeilingu en það mál sem nú er til umræðu.

Ég bið um að hv. þingmaður komi hér upp og leiðrétti þetta í nefndaráliti sínu og þeirra Birgis Ármannssonar og hv. þingmanna Vigdísar Hauksdóttur og Árna Johnsens, og að við förum rétt með í umræðunni, sem hefur verið kurteisleg og málefnaleg.