141. löggjafarþing — 61. fundur,  22. des. 2012.

loftslagsmál.

381. mál
[02:47]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Eins og ég fór yfir í ræðu minni á stjórnarskráin að njóta vafans í þessu frumvarpi. Ég segi því nei í atkvæðagreiðslunni á eftir svo að það sé upplýst hér. En þar sem um nýtt framsal er að ræða, nýja tegund af valdaframsali ríkisins, er ekki hægt að una við það. Hér verðum við að stoppa, löggjafarþingið sjálft hér á Alþingi. Þetta er einungis byrjunin á því sem koma skal vegna þess að Evrópusambandið setur á okkur miklar kvaðir að innleiða lög og reglugerðir í því aðlögunarferli sem nú er í gangi.

Virðulegi forseti. Ég vara við þessari þróun. Það verður ekki lengra haldið í innleiðingu laga og reglugerða frá Evrópusambandinu nema við breytum stjórnarskránni. Það getur orðið verkefni okkar hér fyrir vorið, þess vegna finnst mér það mikil linkind að ekki skuli hafa verið farið af stað með það hér að fara og semja við Evrópusambandið um þessi mál (Forseti hringir.) og að það mundi þá gefa okkur það svigrúm að við séum fær til að innleiða þessa löggjöf með breyttri stjórnarskrá.