141. löggjafarþing — 63. fundur,  14. jan. 2013.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[10:43]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við göngum nú til atkvæða um vernd og orkunýtingu landsvæða. Þar með er lokið löngu ferli við 2. áfanga rammaáætlunar, ferli sem Alþingi mótaði með lagasetningu árið 2011 og var samþykkt án mótatkvæða. Ákvörðun var tekin um að setja nokkur svæði í biðflokk að undangengnum umsögnum á þeim grunni að afla þyrfti ítarlegri gagna áður en endanleg ákvörðun yrði tekin um flokkun. Þar þurfum við bestu mögulegu upplýsingar um náttúrufar og náttúran verður látin njóta vafans í anda varúðarreglunnar. Næsta verkefnisstjórn mun afla nauðsynlegra upplýsinga um þá kosti sem eru í biðflokki auk þess sem svæðum í verndarflokki verður komið í friðlýsingarferli.

Ég vil þakka formanni nefndarinnar Guðfríði Lilju Grétarsdóttur fyrir afar gott samstarf, talsmanni málsins Merði Árnasyni, og nefndinni allri.

Virðulegi forseti. Ég legg til að við styðjum tillögu meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar óbreytta og það jafnvægi sem hún felur í sér milli ólíkra sjónarmiða.