141. löggjafarþing — 63. fundur,  14. jan. 2013.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[10:56]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Rammaáætlun er sáttmáli um vernd og nýtingu náttúruauðlinda landsins. Sáttmálinn á sér langan aðdraganda með aðkomu almennings og faglegrar vinnu sérfræðingahóps verkefnisstjórnar. Fjölda viðkvæmra landsvæða hefur verið komið í varanlegt skjól í verndarflokki og aðrar náttúruperlur hafa verið settar úr nýtingarflokki í biðflokk þar sem varúðarsjónarmið eru höfð uppi og ítarlegar rannsóknir munu fara fram áður en tillögur verða lagðar fram um vernd eða nýtingu.

Hér er á ferðinni sáttmáli sem kominn er úr faglegu vinnuferli sem ég tel vera mjög brýnt að við sameinumst um í stað þess að hvert og eitt okkar fari fram með sínar ýtrustu óskir, sem mundi eyðileggja það jafnvægi milli verndar og nýtingar sem lagt er til. Þetta er stór áfangasigur fyrir þá sem vilja njóta og nýta íslenska náttúru af skynsemi og því ber að fagna.