141. löggjafarþing — 63. fundur,  14. jan. 2013.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:07]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er dapurlegt að hér sé eina niðurstaðan eftir allt þetta ferli ríkisstjórnarinnar að það sé orðin sátt innan ríkisstjórnarinnar. Það hefði vissulega verið gott ef sú sátt hefði náðst fyrir einu og hálfu ári en þetta mál hefur dvalist í bakherbergjum ríkisstjórnarinnar í meira en ár og tafist fyrir þær sakir og þær fjárfestingar sem áttu að vera byggðar á rammaáætluninni tafist fyrir vikið. Það er ójafnvægi í þessari tillögu gagnvart vatnsaflsvirkjunum og jarðvarmavirkjunum.

Það er vissulega jákvætt að hér eru margar náttúruperlur settar í verndarflokk. Í þingsályktunartillögunni stendur, með leyfi forseta:

„Í verndar- og orkunýtingaráætluninni skal í samræmi við markmið laga nr. 48/2011 lagt mat á verndar- og orkunýtingargildi landsvæða og efnahagsleg, umhverfisleg og samfélagsleg áhrif nýtingar, þar með talið verndunar.“

Það er ekki gert og við framsóknarmenn leggjum því til að ríkisstjórnin gefi sér hálfan mánuð eða nokkrar vikur til viðbótar og komi (Forseti hringir.) með skynsamlegra plagg sem víðtækari sátt næst um í samfélaginu en ekki bara innan ríkisstjórnarflokkanna.