141. löggjafarþing — 63. fundur,  14. jan. 2013.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:08]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við þingmenn Sjálfstæðisflokksins lögðum fram sérstakt frumvarp sem hnígur mjög í svipaða átt og sú tillaga sem hér er mælt fyrir og við greiðum atkvæði um og þess vegna er full ástæða fyrir okkur til að styðja hana. Hún miðar að því að ná fram sama markmiði sem er að halda áfram þessari vinnu á faglegum forsendum og í því felst að sjálfsögðu að það fá ekki allir á endanum allt sem þeir biðja um. Það er í sjálfu sér rétt sem fram kom hér hjá hv. þm. Björgvin G. Sigurðssyni, þetta mál getur aldrei endað þannig, en með því að skuldbinda sig til að hlíta faglegri niðurstöðu sem tíu ára þverfagleg rannsóknarvinna býr að baki eru menn að minnsta kosti komnir með áfanga sem hægt er að byggja á til lengri tíma á þinginu. Það virðist ætla að verða vonlaust þegar taka á hina endanlegu niðurstöðu á hinum pólitíska vettvangi hér á þinginu að ná þessu máli upp úr pólitísku förunum.

Hér er gerð seinni tilraunin til að koma málinu aftur í faglegan farveg og hana (Forseti hringir.) mun ég styðja.